Í kvöld fer sjötta umferðin í Domino´s deild kvenna fram. Allir leikir kvöldsins hefjast kl. 19:15. Topplið Keflavíkur mætir í Vodafonehöllina og freistar þess að halda sigurgöngunni áfram.
Leikir kvöldsins í Domino´s deild kvenna:
Fjölnir – Grindavík
Ellert Magnússon stýrir liðinu í kvöld þar sem Bragi Hinrik Magnússon hætti í gær. Grindvíkingar hafa enn ekki unnið leik í deildinni en Fjölniskonur eru í 6.-7. sæti ásamt Haukum með 2 stig.
Valur – Keflavík
Leikurinn verður í beinni útsendingu hjá Sport TV. Keflvíkingar eru eina taplausa liðið í deildinni en Valskonur eftir tap í fyrstu umferð hafa unnið fjóra síðustu leiki sína svo von er á miklum slag að Hlíðarenda.
Snæfell – Njarðvík
Hólmarar eru í 2.-3. sæti deildarinnar ásamt Valskonum og töpuðu naumlega gegn Keflavík í síðustu umferð. Það verður á brattann að sækja fyrir Njarðvíkinga enda hafa Snæfellskonur ekki gleymt neinu frá síðustu leiktíð þar sem þær sáu á eftir bikarnum upp í hendur Njarðvíkinga og máttu lúta í lægra haldi gegn grænum í undanúrslitum Íslandsmótsins.
Haukar – KR
Haukar TV sýna beint frá leiknum og nú er lag fyrir Hafnfirðinga að fara að rétta úr kútnum. Sterkur hópur sem hefur ekki verið að finna sig í upphafi leiktíðar en mun klárlega gera tilkall í að berjast um það að vera á meðal fjögurra efstu liða þegar úrslitakeppnin hefst. KR virðist vera að ná flugi eftir rysjótta byrjun og hefur liðið unnið tvo síðustu leiki sína.
Í kvöld er svo einn leikur í drengjaflokki þegar Þór Þorlákshöfn/Hamar tekur á móti ÍR kl. 18:30.