spot_img
HomeFréttirLeikir dagsins: Nítjánda umferðin af stað

Leikir dagsins: Nítjánda umferðin af stað

10:21
{mosimage}

(FSu fær Snæfell í heimsókn í Iðu í kvöld)

Þrír leikir eru á dagskrá í Iceland Express deild karla í kvöld þegar nítjánda umferðin rúllar af stað. Allir leikir kvöldsins í úrvalsdeild hefjast kl. 19:15 og við hefjum leik á Selfossi þar sem FSu tekur á móti Snæfell.

Þór Akureyri á enn fræðilegan möguleika á því að bjarga sér frá falli í 1. deild en Norðanmenn róa nú lífróður og vonast væntanlega til þess að Hólmarar taki tvö stig á Selfossi. FSu hefur 14 stig í 10. sæti deildarinnar en Þór Akureyri hefur 8 stig í 11. sæti. Snæfell berst um 3. sæti deildarinnar við Keflavík og eru nú með 24 stig en Keflvíkingar 22. FSu burstaði nýliðaslaginn gegn Blikum í síðustu umferð 77-96 í Smáranum og náðu þar í gríðarlega mikilvæg stig. Sigur í kvöld hjá FSu þýðir að liðið hefur næsta örugglega tryggt sæti sitt í deildinni. Tap þýðir að Þórsarar halda enn í vonina en þeir mæta Tindastól á morgun og þurfa nauðsynlega á sigri að halda.

Grindavík tekur á móti nýliðum Breiðabliks í Röstinni en til þess að Grindavík verði deildarmeistari þurfa þeir að treysta því að KR misstigi sig á lokaspretti deildarkeppninnar og að gulir vinni alla sína leiki. Það verður því á brattann að sækja hjá Blikum í kvöld en skemmtilegt einvígi er í vændum og fróðlegt frá því að segja að þarna mætast Brenton Birmingham og Rúnar Ingi Erlingsson. Sá síðarnefndi er á meðal efnilegustu leikmanna landsins og leikstjórnandi Blika en Brenton á meðal þeirra bestu og reyndustu. Það er ekki síður gaman frá því að segja að Rúnar Ingi var vatnsberi hjá Njarðvík hér í eina tíð og svalaði þorsta Brentons en nú mætast þessir kappar á vellinum og spurning hvort Rúnari Inga ,,þyrsti“ ekki í sigur gegn sínum gamla liðsfélaga úr Njarðvík.
Blikar eru í miðjum suðupottinum ásamt öðrum liðum í sætum 6-10 í deildinni og ríkir mikil spenna um hvar þessi lið munu raðast í deildarlok.

Skallagrímsmenn mæta ÍR í Borgarnesi og eru ÍR-ingar rétt eins og Blikar í suðupottinum fræga en Skallagrímsmenn eru fallnir í 1. deild. Þeir unnu sinn annan deildarsigur í síðustu umferð með 85-81 sigri á Tindastól en sá sigur kom of seint fyrir Borgnesinga. ÍR tapaði naumlega gegn Snæfell í síðustu umferð en eru eins og sakir standa með 14 stig í 8. sæti deildarinnar og hefur liðið tapað tveimur af síðustu þremur leikjum sínum.

Einn leikur fer fram í 1. deild karla í kvöld þegar Fjölnir tekur á móti Val kl. 19:15 í Grafarvogi. Valsmenn eru í 2. sæti deildarinnar með 22 stig en Fjölnismenn eru í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppnin 1. deildar og hafa Grafarvogsbúar 18 stig í 5. sæti deildarinnar.

Í 2. deild karla mætast svo ÍA og Glói á Jaðarsbökkum á Akranesi kl. 19:15.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -