08:48
{mosimage}
(Páll Axel Vilbergsson hefur átt erfitt uppdráttar gegn KR vörninni)
Þrír leikir fara fram í Iceland Express deild karla í kvöld þar sem stórleikur kvöldsins er vafalítið viðureign toppliðanna KR og Grindavíkur. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport kl. 19:15. Þá mætast einnig FSu og Keflavík á Selfossi og Tindastóll tekur á móti ÍR á Sauðárkróki.
Grindvíkingar fá nú fjórða tækifærið á leiktíðinni til þess að leggja KR en síðustu þrír leikir liðanna hafa verið miklir baráttuleikir. Liðin mættust fyrst í Poweradebikarnum þar sem KR vann eftirminnilegan sigur 98-95 með þriggja stiga flautukörfu frá Jason Dourisseau. KR tók svo á móti Grindavík í DHL-Höllinni þann 6. nóvember 2008 og hafði nauman 82-80 sigur. Þriðja viðureign liðanna var svo undanúrslitaslagurinn í Subwaybikarnum þar sem KR hafði á ný sigur, 82-70. Nú er komið að Grindvíkingum að leika heima og má búast við miklu fjöri í Röstinni.
Liðsmenn FSu eru væntanlega sáttir við Stjörnuna um þessar mundir en Garðbæingar höfðu sigur á Þór Akureyri í gær og þannig hélst fjögurra stiga bilið millum FSu og Þórs. Þór er í fallsæti með 8 stig en FSu í 9-.10. sæti með ÍR þar sem bæði lið hafa 12 stig. Keflvíkingar töpuðu mikilvægum stigum heima gegn Snæfell sem sitja nú í 3. sæti með 22 stig en Keflavík getur jafnað þá að stigum að nýju með sigri á Selfossi í kvöld.
Tindastólsmenn hafa ekki verið að finna taktinn undanfarið og hafa hægt og bítandi smokrað sér niður í 7.-8. sæti deildarinnar með 14 stig líkt og nýliðar Breiðablik. Takist ÍR að vinna sigur í Síkinu í kvöld jafna þeir Stólana að stigum en ÍR fylgir fast á hæla þeirra með 12 stig.
Allir leikir kvöldsins í Iceland Express deild karla hefjast kl. 19:15!
Aðir leikir dagsins eru hér: http://kki.is/leikvarp.asp
Mynd: [email protected]