Undanúrslitin í Poweradebikarkeppni kvenna hefjast í kvöld þegar Hamar tekur á móti Val í Hveragerði. Leikurinn hefst kl. 19:15 en það lið sem hefur sigur í kvöld mun leika til úrslita gegn Snæfell eða Keflavík í Laugardalshöll þann 16. febrúar næstkomandi.
Eins og mörgum er kunnugt er heil deild sem skilur liðin að, Hamar leikur í 1. deild kvenna og eru þar taplausar en Valskonur leika í Domino´s deild kvenna og eru þar í 3. sæti deildarinnar með 20 stig. Það verður því á brattann að sækja hjá Hvergerðingum en Karfan.is hefur heimildir fyrir því að fjölmennt verði í Frystikistunni þar sem Lárus Friðfinsson formaður KKD Hamars verði líklega við grillið að ,,flambera” þar safaríka hamborgara.
Í kvöld er einnig leikið í 1. deild karla. Reynir Sandgerði tekur á móti Augnablik kl. 19:00 í Sandgerði og FSu fær Þór Akureyri í heimsókn í Iðu kl. 19:15.
Mynd/ Marín Laufey mun hafa í nógu að snúast með Hamri í kvöld. Hér er hún í leik á NM 2012 með U18 ára landsliði Íslands.