Sá raunverulegi var nokkuð ryðgaður þegar hann vaknaði á sunnudagsmorgni. Nokkrir gulir og glaðir höfðu legið í valnum frá kvöldinu áður en ungabörn bera litla virðingu fyrir því og vakna á sínum tíma, sem er yfirleitt ekki kristilegur, hvað þá á sunnudegi.
Helginni áður hafði ég lofað ritstjóra Körfunnar, þeim Eldfima, að vera með viðtöl og umfjöllun um leik Keflavíkur og Hauka. Ég íhugaði að hringja í Eldinn og ljúga að honum að ég væri kominn með Covid19 en eftir tvo kaffibolla og power nap varð ég allur ferskari og staðfesti við Eldinn að ég væri on. Honum leist vel á það og sagði að ef ég lenti í einhverjum vandræðum þá mætti ég nota nafnið hans einu sinni, en hann er gríðarlega virtur í Keflavík.
Þetta hafði verið á stefnuskránni lengi. Ég hafði nefnilega bara einu sinni áður komið til Keflavíkur á ævinni og aldrei inní íþróttahúsið við Sunnubraut. Ástæðan fyrir þessu var sú að ég keyri helst ekki Reykjanesbrautina nema ég sé að fara uppá flugvöll og þegar ég var að spila í yngri flokkum með liði Heklu þá vorum við aldrei nálægt því að vera með Keflavík í riðli á meðan leikir við Kormák á Hvammstanga, þar sem Þorgrímur Guðni Björnsson tók mann reglulega í kennslustund á postinum, Ármann og Sindra í Hornafirði skipta tugum.
Þegar lagt er af stað til Keflavíkur er mikilvægt að vera á góðum bíl. Það getur myndast mikill vindur á Reykjanesbrautinni og í bland við ísingu á malbiki getur verið stórhættulegt að keyra. Sá raunverulegi þarf nú ekki að hafa miklar áhyggjur af því, enda nýkominn á glæsilegan jeppa sem fer þangað sem hann vill komast, sama hvað. Ég sótti Baldur bróðir minn sem ætlaði að vera mér til halds og trausts og svo var lagt af stað til Keflavíkur.
Þegar við keyrðum Hafnargötuna í Keflavík helltist andinn yfir mig. Héðan eru öll þessi helstu. Rúnni Júll, Óli Geir, Ruth Reginalds, Gaui Skúla. Við keyrðum framhjá Paddy´s sem freistaði, næst mun ég taka einhvern með mér sem er með bílpróf. Við höfðum tíma til þess að borða og stakk bróðir minn uppá Hlölla. Þá grenjaði ég úr hlátri. Aðkomumenn sem koma til Keflavíkur og fara á Hlölla eru lamdir í 100% tilvika. Olsen Olsen er staðurinn, oft kallaður sameiningartákn Reykjanesbæjar.
Á Olsen Olsen fengum við frábærar móttökur, ég fór í Búkolluna en Baldur lét franskar duga. Á meðan við sátum og átum mætti öll flóran af locals að borða. Þunnar mæður með börnin sín, feður að ræða meðlag og allt þess á milli. Aahhh, þetta er Keflavík.
Jæja, Búkollan búinn og nú þarf að finna Blue höllina. Eftir smá detour fannst íþróttahúsið að lokum. Núna þurfti ég að láta reyna á street creditið hjá Eldinum því ég var ekki með blaðamannapassa. Ég labbaði ákveðinn inn og spurði í móttökunni hvar blaðamanna stúkan væri. “Hvaðan ert þú vinur” spurði starfsmaðurinn og ég sagði að Eldurinn hefði sent mig. Það var ekki að spurja að því, mér var fylgt í aðstöðuna sem er staðsett við hliðiná bekknum hjá Keflavík. Þvílík virðing sem hann fær þarna.
Þegar ég labbaði inní sal bjóst ég við Joey Drummer, Jói Árna, Hákon og hinir verkfræðingarnir væru berir að ofan að syngja og tralla í stúkunni en ekkert bólaði á þeim. Þeir eru kannski að spara sig fyrir playoffs. Hauka manían var aftur á móti svæðinu, tveir með eina trommu. Fámennt en góðmennt. Manían var aftur á móti ekki jafn peppuð og Finnur Jónsson, aðstoðarþjálfari Keflavíkur, sá getur öskrað sína menn í gang.
Hægt er að lesa betur um gang leiksins hér en sá raunverulegi var nokkuð sáttur með þessa Pílagrímsferð til Keflavíkur. Olsen Olsen stóð fyrir sínu og ég veit að Joey Drummer mun mæta með verkfræðingana sína í playoffs og syngja og tralla. Þá kem ég með þeim á Paddy´s eftir leik.
Þangað til næst, Sá Raunverulegi