spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaLeikdagur á Hlíðarenda : Sá Raunverulegu forðaðist Covid-19 í Origo Höllinni

Leikdagur á Hlíðarenda : Sá Raunverulegu forðaðist Covid-19 í Origo Höllinni

“Jæja nú er allt endanlega farið til fjandans” sagði ég við 5 mánaða barnið mitt þegar við renndum yfir vefmiðlanna í upphafi leikdags. Tom Hanks og frú komin með Covid19, þetta er hætt að vera fyndið. Eftir korters rökræður við sjálfan mig komst ég að þeirri niðurstöðu að nú væri heilbrigður lífstíll settur á hold. Á tímum sem þessum þarf að lifa og njóta, ekkert helvítis hrökkbrauð og skyr í öll mál, núna er þetta bara pizza og panic. Barnið mitt virtist aftur á móti ekkert stressað, var að leika sér með tómar umbúðir af blautþurrkum. Það virðist þá vera satt sem nafni minn Thomas Gray sagði um árið, ignorance is bliss. 

Covid19 matarræðið mun verða vinsælt á næstu misserum

Ritstjóri Karfan.is, sá eldfimi, var aftur á móti mjög yfirvegaður og stappaði í mig stálinu. Hann sagði að þetta væri ekki bara einhver leikur í kvöld, þetta er Valur-KR. Reykjavíkurstórveldin. Slagurinn um miðbæinn. Slagurinn um Gumma Ben. Pavel vs Jón Arnór. Þarftu eitthvað meira? Ég sannfærðist, enda allar líkur á að þetta væri síðasti leikur Dominos deildarinnar í bili. 

“Þetta er Valur-KR skiluru”

Það var ekki að ástæðulausu að sá eldfimi hafi valið mig til að fjalla um leikinn. Ég hef búið í Hlíðunum og Valsmegin í miðbænum síðan ég flutti til Reykjavíkur. Dagný Brynjars, ástsælasta knattspyrnukona Hellu frá upphafi spilaði með Val og ofaná þetta allt saman er Lolli í Val náskyldur ömmu minni og þar af leiðandi frændi minn. Þetta fréttist síðastliðið sumar og þá var ég loksins formlega tekin inn í stuðningsmannasveit Valsara, Valur Ultras, sem gríninstin Jóhann Alfreð stjórnar. Þar komast bara þeir allra hörðustu inn. Svo var ég líka sá eini sem komst á leikinn fyrir hönd karfan.is. Jæja klukkan orðin 18, best að drífa sig. Ætli vini mínir í Fjósinu séu í köldum?

Ljós í glugga, það þýðir partý

Mínir menn í fjósinu láta ekkert stoppa sig. Þeir allra hörðustu voru mættir í bjór og slúður. Ég heyrði útundan mér að Þorgrímur Þráins hefði mætt þarna fyrr um daginn og lýst yfir að EM í fótbolta í sumar myndu frestast til 2021. Þá veit maður það. Þegar ég spurði strákana í fjósinu hvort þeir ætluðu ekki að drífa sig í Origo höllina þá hlógu þeir. Sögðu að það væri miklu skemmtilegra í fjósinu, hér væri Manchester United á breiðtjaldi og nóg af bjór. Ég þrýsti niður bjórnum mínum og fór út, ég hefði líklega ílengst þarna ef ég hefði pantað annan. 

Ekki töluð vitleysan hér

Enn og aftur þurfti ég að reyna að koma mér í blaðamannastúkuna án passa. Það var ekki mikið mál eftir að ég frétti að blaðamannaðstaðan væri hjá Lollastúku. “Já ertu að tala um stúkuna sem er nefnd eftir frænda mínum?” Gjörðu svo vel vinur. Það er greinilega alltaf gott að eiga góðan frænda. Miðað við áhuga strákanna í Fjósinu bjóst ég við tómri Origo höll en svo var ekki. Svali Björgvins var á sínum stað og einhverjir litlir guttar með trommur. Jóhann Alfreð, Högni í Hjaltalín, Logi Pedro og hinir í Valur Ultras voru þó hvergi sjáanlegir. Líklega einhverskonar mótmæli af þeirra hálfu vegna lélegs gengi Vals á þessu tímabili.

Lollastúka, eða “Stúkan hans frænda” eins og ég kalla hana alltaf

Ég horfði á 1. leikhluta í Lollastúkunni, hneykslaðist aðeins á því að virtur blaðamaður eins og ég ætti ekki kost á því að stinga tölvunni minni í samband. Komst síðan að því að blaðamannaaðstaðan væri aðeins innar í salnum, ég var í VIP-inu. Í blaðamannastúkunni var fámennt en góðmennt. Ísak, kollegi minn hjá Vísi var þarna og svo var Grímur Atla að stjórna tónlistinni og passa upp á það að dómarar leiksins væru að dæma rétt, lét þá alveg heyra það ef svo var ekki. Í eitt siptið var Grímur svo upptekinn að leiðbeina dómurunum að hann gleymdi að slökkva á tónlistinni. Leikurinn var stöðvaður og spurði Ingi þjálfari KR-inga Grím hvort að Airwaves væri nokkð byrjað strax. Grímur hló ekki. 

Ísak kollegi og Grímur að sjá til þess að allt fari vel fram

Nánar er hægt að lesa um leikinn um leikinn hér, en ég geng sáttur frá borði eftir þennan leikdag. Valsmenn og strákarnir í Fjósinu tóku vel á móti mér. Smá vonbrigði hvað Svali Björgvins var rólegur í stúkunni en Grímur Atla bætti það heldur betur upp. 

 Þangað til næst, Sá Raunverulegi

Fréttir
- Auglýsing -