Stjörnumaðurinn Dagur Kár Jónsson hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna aðeins 29 ára gamall.
Dagur Kár er að upplagi úr Stjörnunni, en ásamt þeim hefur hann einnig leikið fyrir KR og Grindavík á Íslandi, Flyers Wels í Austurríki og Ourense á Spáni ásamt því að hafa á sínum tíma verið bandaríska háskólaboltanum með St. Francis skólanum í New York.
Samkvæmt fréttatilkynningu Stjörnunnar leggur Dagur Skóna nú á hilluna vegna meiðsla sem hafa haldið honum utan vallar lengi. Missti hann nánast af öllu síðasta tímabili vegna meiðsla í hné og baki, fór í aðgerð á hné í febrúar sem skilaði því miður ekki tilætluðum árangri. Þá lék Dagur fjölda landsleikja fyrir yngri landslið Íslands og sex A-landsleiki.
„Það er vissulega erfið ákvörðun að leggja skóna á hilluna en nú er skrokkurinn búinn að segja stopp. Ég er hins vegar stoltur af ferlinum og mjög þakklátur fyrir það að enda hann hérna heima í Stjörnunni. Sem Garðbæingur og uppalinn Stjörnumaður hlakka ég til að styðja áfram liðið úr stúkunni,“ sagði Dagur.
Karfan óskar Degi til hamingju með frábæran feril og velfarnaðar í því sem hann tekur sér fyrir hendur í framtíðinni.