Fyrirliði Þórs frá Þorlákshöfn í Bónus deild karla Emil Karel Einarsson hefur lagt skóna á hilluna. Staðfestir Emil þetta í samtali við Körfuna fyrr í kvöld.
Emil er 31 árs gamall og eftir að hafa leikið upp alla yngri flokka Þórs hóf hann að leika fyrir meistaraflokk þeirra árið 2009. Með þeim hefur hann leikið allar götur síðan og verið lykilleikmaður í liði sem hefur fest sig í sessi í efstu deild, en tímabilið 2020-21 var hann fyrirliði liðs þeirra sem vann Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta skiptið.
Á sínum tíma, 2008-2012, lék Emil upp yngri landslið Íslands með sterkum 1994 árgang sínum, 33 leiki, og árið 2017 lék hann 5 leiki fyrir A landslið Íslands.
Karfan óskar Emil til hamingju með frábæran feril og velfarnaðar í því sem hann tekur sér fyrir hendur í framtíðinni.