spot_img
HomeFréttirLeggið ykkur fram eða farið á bekkinn

Leggið ykkur fram eða farið á bekkinn

Los Angeles Lakers hafa ekki átt sjö dagana sæla undanfarið. Liðið fór illa af stað á þessari leiktíð en tókst þó að sigra Brooklyn Nets á föstudagskvöldið.

 

Liðið er hlaðið af ungum leikmönnum með litla reynslu en töluvert af hæfileikum. Þar má nefna D'Angelo Russell, Jordan Clarkson og Julius Randle sem lék svo gott sem ekkert á síðustu leiktíð eftir að hafa fótbrotnað í leik í fyrstu leikjunum. Þeir hafa allir verið í byrjunarliði Lakers undanfarna leiki.

 

Byron Scott, þjálfari Lakers er ekki sáttur við hvernig þessir guttar eru að spila og hefur sett þeim úrslitakosti:  leggið ykkur fram eða hlammið ykkur á bekkinn.  Scott nefndi engin nöfn en menn þurfa að vera blindir til að lesa ekki á milli línanna að þessir þrír eru í sigtinu hjá Scott. Hann sagðist myndi hefja leik með Metta World Peace og Larry Nance jr. (nýliði sem valinn var neðarlega í nýliðavali þessa árs) ef þessi þróun heldur áfram.

 

Nú er bara að bíða og sjá hvort Scott stendur við stóru orðin, og þá einnig hvort leikmennirnir taka hótanir hans alvarlega.

 

 

Mynd: Los Angeles News Group

Fréttir
- Auglýsing -