LeBron James verður útnefndur leikmaður ársins, MVP, í NBA fyrir yfirstandandi leiktíð, ef eitthvað er að marka fréttir vestanhafs. Þetta verður annað árið í röð sem hann fær þessi verðlaun.
Formleg tilkynning verður ekki gefin út fyrr en á sunnudag, en blað í Cleveland hafði þessar fregnir eftir innanbúðarmanni í NBA. Raunar eru þetta ekki óvæntar fréttir því að enginn hefur komist með tærnar þar sem King James er með hælana þetta tímabil frekar en það síðasta.
Sama hvort horft er til tölfræði hans sem leikmanns, áhrifa hans á lið sitt eða frammistöðu þegar sigur er í húfi er enginn spurning að James ber höfuð og breiðar herðar yfir alla aðra leikmenn og er fyllilega vel að þessum verðlaunum komin.
Í fyrra var uppi umræða um hvort Kobe Bryant væri ef til vill jafningi hans, en í ár hefur enginn verið á sama stalli. Bryant er búinn að vera mikið meiddur, Dwayne Wade er í afleitu liði og þó að Kevin Durant sé eitthvað mesta efni sem komið hefur fram í sögu íþróttarinnar er hann einfaldlega ekki eins góður og James. Það er helst Dwight Howard, miðherji Orlando, sem hefur minnsta tilkall til krúnunnar að þessu sinni, en eins og með alla aðra, er hann einfaldlega ekki á pari við James þegar kemur að heildarframlagi á öllum sviðum.
Þó formleg ákvörðun hafi, eins og áður sagði, ekki verið opinberuð þarf enginn að velkjast í vafa um væntanlegt val. Eina spurningin er hvenær nokkur mun fara framúr James og taka af honum titilinn. Sennilegast verður það ekki fyrr en hann sjálfur verður farinn að dala.
Menn verða ekki mikið betri en þetta.