LeBron James neitar að gefast upp í baráttu sinni um að koma Larry O'Brien bikarnum til Cleveland. Lykilmenn hrynja niður hvað eftir annað og ekkert stendur eftir nema James sjálfur og hinir ólíklegustu fírar sem virðast þó klárir í verkið.
Warriors mættu með byssurnar hlaðnar strax í upphafi og skaut Klay Thompson ljósin út í fyrri hálfleik. Warriors eru samt ekki með LeBron James í sínu liði. Hann leiddi árás sinna manna og fylgdu þeir fast á eftir.
Leikurinn var alltaf jafn en Cavs áttu færi á að loka leiknum 2 stigum yfir með þriggja stiga skoti frá Iman Shumpert en hann brenndi af úr horninu eftir frábæran varnarleik Warriors. Golden State menn snéru vörn í sókn og saumuðu sundur og saman vörn Cavs þar til Stephen Curry setti niður galopið sniðskot til að jafna leikinn.
Framlenging var staðreynd og nú blasti við Cavs að gera betur en í framlengingunni í síðasta leik þar sem þeir skoruðu aðeins 2 stig á 5 mínútum.
Draymond Green hafði góðar gætur á LeBron James í framlengingunni en sá síðarnefndi gaf heldur ekkert eftir. JR Smith lagði sitt af mörkum til að tapa leiknum með heimskulegum villum út um allan völl en allt kom fyrir ekki. Ástralinn Matthew Dellavedova sótti mikilvægt sóknarfrákast rétt fyrir lok framlengingarinnar og brotið var á honum og Cavs með skotrétt. Hann setti bæði niður og eftir misheppnaða sókn Warriors hinu megin var LeBron sendur á línuna sem lokaði leiknum fyrir þá.
LeBron James setti upp sína fimmtu þrennu í úrslitaviðureign, 39 stig, 16 fráköst og 11 stoðsendingar en James er nú annar í röðinni yfir flestar þrennur í úrslitum.
Mikill varnarleikur þar sem bæði lið skutu undir 40% í leiknum en Cavs unnu frákastabaráttuna með 10 og með 5 færri tapaða bolta sem hefur lagt grunninn að sigrinum.
Leikur 2 í draugsýn: