spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaLaskaðir ÍR-ingar lögðu nýliðana heima í Helli

Laskaðir ÍR-ingar lögðu nýliðana heima í Helli

ÍR lagði Breiðablik með 92 stigum gegn 82 í lokaleik þriðju umferðar Dominos deildar karla. Eftir leikinn er ÍR komið með tvo sigra úr fyrstu þremur leikjunum á meðan að Breiðablik er enn án sigurs.

Gangur leiks

Nýliðar Breiðabliks mættu ferskir til leiks í kvöld. Leiddu eftir fyrsta leikhluta, 20-24. Undir lok fyrri hálfleiksins ná heimamenn þó að vinna niður þá forystu, en þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var staðan jöfn, 44-44.

Í upphafi seinni hálfleiksins var leikurinn svo áfram jafn og spennandi, ÍR aðeins stigi yfir fyrir lokaleikhlutann, 65-64. Í þeim fjórða varð svo algjört hrun á leik nýliðanna og fór svo að lokum að ÍR sigraði leikinn með 10 stigum, 92-82

Kjarninn

Í tæpa þrjá fjórðunga hafði maður það á tilfinningunni að lið Breiðabliks ætti raunverulegan möguleika á að ná í fyrsta sigur tímabilsins. Liðið sem spilaði fjórða leikhlutann var hinsvegar á öðru máli. Vörnin í besta falli léleg og sóknarleikurinn bæði einhæfur og hugmyndasnauður.

Áberandi var hvað ÍR saknaði leikstjórnanda síns í leiknum, Matthíasar Orra Sigurðarsonar, en hann er frá næstu vikurnar vegna ökklameiðsla. Vel gert hjá ÍR að klára þennan leik í kvöld án hans, en spennandi verður að sjá hvernig þeir verða án hans í næstu leikjum.

Tölfræði

ÍR fékk aðeins 4 stig af bekk sínum í kvöld á móti 25 hjá Breiðabliki. Aðeins 7 ÍR-ingar spiluðu 5 mínútur eða meira í leiknum á meðan að Breiðablik spilaði 11 leikmönnum 5 mínútur eða meira í leiknum.

Hetjan

Sigurður Gunnar Þorsteinsson og Justin Martin voru hetjur ÍR-inga í kvöld. Sigurður með 18 stig og 10 fráköst og Martin með 31 stig og 6 fráköst.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn 

 

Fréttir
- Auglýsing -