spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaLárus spáir í sjöundu umferð Dominos deildar karla

Lárus spáir í sjöundu umferð Dominos deildar karla

Í hverri viku munu sérfræðingar Körfunnar spá fyrir um hverja umferð í Dominos deildunum. Sérfræðingarnir verða fyrrum körfuboltamenn, þjálfarar, áhugamenn eða einhver allt annar.

Sjöunda umferð Dominos deildar karla hefst í kvöld með einum leik. Þar mætast Reykjavíkurliðin ÍR og Valur í hörkuleik.

Spámaður vikunnar er þjálfari Þórs frá Akureyri, Lárus Jónsson.

________________________________________________________________________

ÍR vs Valur:

Valsarar unnu frækinn sigur á Stjörnunni í síðustu umferð og hafa innanborðs besta leikmann deildarinnar, Kendall Lamont. Það er seigt í lærisveinum Borche og það verður spennandi að sjá hvernig ÍR ætlar að dekka vagg og veltu hjá Valsmönnum, eitthvað sem Stjarnan átti fá svör við. Valur vinnur í framlengingu.
Breiðablik vs Þór Þorlákshöfn
Liðið sem tapar þessum leik gæti endað í fallbaráttu í vetur. Þórsarar urðu fyrir mikilli blóðtöku þar sem þeir missa Matulis sökum meiðsla og spurning hvort það verði til þess að þjappa þeim saman eða gefa Blikum möguleika á öðrum sigrinum á heimavelli í vetur. Breiðablik vinnur  94-86 þar sem fráköst munu skipta miklu máli.
Skallagrímur vs Keflavík
Finnur er snillingur að búa til góða stemmning og maður veit aldrei að vita hvort hann dragi eitthað óvænt upp úr pokahorninu. Bjarni Guðmann þarf að eiga svakalegan leik á Craion ef Skallagrímur á að eiga séns í Keflavík. Spái 6 stiga sigri KEF í troðfullu Fjósinu.
KR vs Haukar
Ívar að koma aftur í DHL höllina eftir viðtalið fræga, Emil á móti uppeldiskúbbnum og svo er spurning með hvoru liðinu Finnur Atli muni spila. Liðin hafa spilað betur en menn bjuggust við í vetur og það verður gaman að sjá hvort Hilmar Hennings haldi áfram að blómstra og hvort Hjálmar geti fylgt eftur góðum fyrsta leik eftir meiðsli. KR virðist vera með lið til þess að taka sjötta tililinn í röð og það ættu allir að njóta þess að sjá Jón spila… vonandi ekki sitt síðasta tímabil. KR vinnur 92-84
Grindavík vs Njarðvík
Mun hæðin og seiglan hjá Njarðvík hafa betur gegn sprengjunni og léttleikanum hjá Grindavík? Ég giska á að Sigtryggur vinni… 99-98 fyrir Grindavík.
Stjarnan vs Tindastóll

Stórleikur umferðarinnar þar sem tvö mjög góð lið eigast við og það verður hrikalega gaman að sjá hvað Arnar og Ísrael munu gera til þess að koma hinu liðinu úr jafnvægi. Stólarnir hafa spilað frábæra vörn í vetur en sóknin ekki verið mjög smurð sem gæti lagast um leið og Pétur og Danero finna þriggja stiga fjölina. Ægir er búinn að stjórna leiknum vel fyrir Stjörnuna en mér finnst að hann megi taka meira til sín og vera nær 15 skotum í leik heldur en 10. Vörnin hjá Viðari var frábær í síðasta leik og spurning hvern Ísrel lætur hann dekka en á einhverjum tímapunkti munum við sjá Pétur á móti Ægi fara 1v1 og þá er eins gott að blikka ekki augunum! Allt undir hjá Stjörnunni og þeir taka þetta með tveimur stigum.
Fréttir
- Auglýsing -