spot_img
HomeFréttirLárus Ingi hættur með Njarðvík

Lárus Ingi hættur með Njarðvík

 Lárus Ingi Magnússon hefur í samstarfi við stjórn UMFN rift samningi sínum við körfuknattleiksdeildina sem aðstoðarþjálfari kvennaliðsins. Lárus hóf störf hjá UMFN á síðasta tímabili þegar hann var aðstoðarþjálfari Sverris Þórs Sverrissonar og saman stýrðu þeir liðinu til tveggja stóru titlana á síðasta ári. Í ár hefur hann svo setið á bekknum hjá UMFN og verið aðstoðarþjálfari hjá UMFN með Lele Hardy.
 
“Eftir umhugsun þá tók ég þá ákvörðun á mánudag að leitast eftir því að samningi mínum við deildina yrði rift. Ástæðan er margþætt en sú helsta er að það eru samskiptaörðuleikar í hópnum milli mín og einstakra leikmanna og ákveðið metnaðarleysi hjá þeim sem ég vil ekki hanga á. Ég vil liðinu einfaldlega betra en það.” sagði Lárus Ingi í samtali við Karfan.is
 
“Stærsti hluti hópsins eru frábærar stelpur sem erfitt er að yfirgefa en það þarf ekki mörg skemmd epli til að skemma fyrir heildinni. Þetta eru 3 manneskjur sem gera það að verkum að ég stíg til hliðar. Ég vona svo innilega að þessar fáu sem eiga í hlut og þær vita hverjar þær eru, fari að líta í eigin barm og hugsa sín mál. Svo eru oft á tíðum aðstandendur leikmanna ekki öllu betri því miður.”
 
 
 
Það má með sanni segja að lið Njarðvíkur mæti nánast með nýtt lið til leiks eftir síðasta tímabil þegar þær tóku báða þá stóra titla sem í boði voru. Allt byrjunarliðið er horfið á braut nema Lele Hardy ásamt nokkrum sterkum leikmönnum. Þá fór Sverrir Þór Sverrisson þjálfari liðsins til Grindavíkur og nú hefur Lárus Ingi Magnússon
 
“Við vissum að þessi vetur yrði erfiður og við missum 5 leikmenn frá síðasta tímabili sem voru að spila stórt hlutverk í liðinu. En sumar hverjar sem urðu eftir héldu að mínúturnar kæmu þá sjálfkrafa uppí hendurnar á þeim. En hjá mér virkar það þannig að þú þarft að vinna þér inn þínar mínútur og sýna metnað og dugnað. Lele (Hardy) bað mig um að endurskoða ákvörðun mína ásamt nokkrum öðrum leikmönnum en því verður ekki haggað hjá mér á meðan svona er í pottinn búið. Að vissu leyti hefði þurft að grípa í taumana fyrr en það er líka erfitt þegar hópurinn er þunnskipaður. En ég tek þessa ákvörðun með hagsmuni liðsins í forgrunni. Ég mun áfram fylgjast með þeim og vona að þetta verði til þess að liðinu gangi betur það sem eftir lifir tímabils.” sagði Lárus Ingi að lokum við Karfan.is
 
Njarðvíkurliðið er með þrjá sigra úr fyrstu 10 leikjunum en það á fyrir sér erfiðan róður í kvöld þegar þær sækja heim nágranna sína og topplið deildarinnar Keflavík sem er ósigrað í deildinni.
Fréttir
- Auglýsing -