Lárus Jónsson, þjálfari Þórs frá Þorlákshöfn var auðvitað mjög kátur í leikslok eftir sigur á Haukum:
Í fyrsta lagi var þetta geggjaður leikur!
Já, þetta var rosalega skemmtilegur leikur. Líka gaman að sjá nýju leikmenn Hauka, sérstaklega Pablo, það eru rosaleg gæði í þeim leikmanni. Ég held að við séum bara svolítið heppnir að mæta þeim í fyrsta leik þeirra! Auðvitað voru þeir að reyna mikið, bæði Pablo og Jalen, bara eðlilega enda keyptir hingað til að reyna…
…jújú…þeir voru auðvitað að reyna að hjálpa liðinu…
….jújú, hjálpa liðinu, en fyrir vikið varð sóknarleikurinn á köflum svolítið stirður hjá þeim í seinni hálfleik…og það kom sér vel fyrir okkur en ekki viss um að það verði þannig fyrir hin liðin sem eiga eftir að mæta Haukum!
Já ég efast um það! En þetta var þvílík skotsýning í þessum leik, ég held ég hafi aldrei séð annað eins!
Haukar voru með 13 þriggja stiga í hálfleik…
…jújú og 65% nýtingu! Það er alveg fáránlegt…
Já alveg rosalegt! En við hittum líka mjög vel…með 53% nýtingu! Svo settu Haukar upp einhverja spjaldið-ofaní þristasýningu í seinni hálfleik! Það ætti bara að banna það…þú mátt fá einn í leik sko!
Já, þetta var fullmikið hjá þeim!
Þetta var aðeins of mikið..Hilmar negldi einum…
Jájá! Hann skammaðist sín líka pínu fyrir það…! Sá það á líkamstjáningunni!
Já hann gerði það!
Þú hlýtur að vera rosalega ánægður með að klára þetta eftir að Drungilas er farinn í sturtu. Þið voruð ekki nema einhverjum 5 stigum yfir eða svo…það er mjög sterkt að ná að klára þetta.
Já hann sagði bara; ,,Guys, no worries, you got Dabbi kóngur“!
Haha! Já, og hann kom inn og gerði mjög vel…
Við spiluðum eiginlega bara betur! Drungilas og Larry eru okkar bestu menn en Dabbi kom bara inn og það kom þá bara meiri hreyfing í sóknina okkar. Svo átti Styrmir auðvitað frábæran leik. Einnig fannst mér Callum stíga rosalega upp í seinni hálfleik, hann var með einhver 16 stig í seinni hálfleik…
Hann var má kannski segja svona lokapúslið til að klára þetta endanlega…
Já, bæði fannst mér hann mjög sterkur í vörninni, tók mikilvæg fráköst og þegar sóknin okkar var að hiksta gátum við farið aðeins á póstinn og hann var að skora af póstinum.
Akkúrat. Og Larry Thomas….hann er allt í lagi í körfu?
Já, hann getur alveg hent boltanum ofaní körfuna! Það er bara þannig…
Hann getur alveg spilað í úrvalsdeild?
Jah…mér finnst hann samt þurfa að sanna sig aðeins…!
Já er það ekki!? En þú minntist svo á Styrmi áðan…hann var alveg geggjaður og kannski bara besti leikur hans af mörgum góðum í vetur?
Já hann var rosalega góður og mér fannst hann líka góður varnarlega gegn Jalen í seinni hálfleik. Bara yfirhöfuð góður leikur hjá honum.
Einmitt. Ég þakka bara kærlega fyrir geggjaða sýningu, Haukarnir áttu vissulega sinn þátt í því, en þið skulduðuð þetta síðan eftir hræðilega leikinn gegn Val þegar ég talaði við þig síðast…
Já, sá leikur var reyndar fínn því við unnum þann leik en spiluðum illa. Þú sagðir að við ættum aldrei að horfa á hann aftur. En við horfðum á hann aftur og lærðum af honum!
Þú sveikst það semsagt?
Já, ég sveik loforðið!
Sagði svikahrappurinn Lalli Jóns! Næsti leikur liðsins er heima gegn Keflavík og undirritaður leggur til að menn horfi á þann leik!
Viðtal: Kári Viðarsson