spot_img
HomeFréttirLánlausir Hamarsmenn steinlágu fyrir Keflavíkurhraðlestinni

Lánlausir Hamarsmenn steinlágu fyrir Keflavíkurhraðlestinni

 
Það hefði mátt halda að Hamarsmenn hefðu farið full snemma í jólafrí þetta árið, því þeir voru heillum horfnir gegn sprækum suðurnesjamönnum í gærkvöld. Gestirnir byrjuðu leikinn af nokkrum krafti á meðan heimamenn voru ekki að finna fjölina sína á auk þess sem flest fráköstin rötuðu í hendur Keflvíkinga. Staðan var 13-28 eftir fyrsta leikhlutann og ljóst að Hamarsmenn þyrftu að girða sig í brók ef þeir ætluðu ekki að verða fyrir háðuglegri útreið gegn sprækum gestunum. Marvin Valdimarsson og Andre Dabney voru báðir stigalausir eftir fyrsta leikhlutann sem sýnir gjörla hvernig ástandið var hjá heimamönnum en á meðan var Hörður Axel kominn með 15 stig (4/8 þriggja stiga).
Hamarsmenn byrjuðu annan leikhlutann af nokkrum krafti og náðu að minnka muninn niður í 20-30 en þá spyrntu gestirnir við fótum og juku forskotið upp í 23-41 en Hamarsmenn náðu aðeins að laga stöðuna fyrir leikhlé í 32-43 þegar Marvin hrökk í gang til skamms tíma og setti niður 5 stig. Eitthvað virtust Suðurnesjamennirnir vera farnir að ryðga í vítunum því aðeins eitt af sjö vítum þeirra í öðrum leikhluta rataði rétta leið, á meðan heimamenn klikkuðu aðeins af einu af sínum sjö vítaskotum í leikhlutanum.
 
Þriðji leikhlutinn var síðan nokkuð í jafnvægi og juku Keflvíkingar smám saman forustuna, en þeir unnu leikhlutann 15-21 undir dyggri stjórn Sigga Þorsteins og Gunna Einars sem skoruðu sitthvor sjö stigin í fjórðungnum en Dabney hélt heimamönnum á floti með sex stigum auk þess sem Viðar Hafsteinsson setti niður fimm víti í tveimur sóknum en staðan 49-64 fyrir lokaleikhlutann og heimamenn ekki líklegir til stórræða. Fjórði leikhlutinn var síðan aðeins formsatriði fyrir gestina sem gerðu sér lítið fyrir og skoruðu 39 stig gegn 25 stigum heimamanna, en Keflvíkingar bættu upp fyrir 2. leikhlutann og hittu úr 19 af 20 vítaskotum sínum í fjórða fjórðung og sigldu öruggum 29 stiga sigri í höfn 74-103.
 
Heimamenn byrjuðu fljótlega að svekkja sig á slæmu gengi og Marvin náði sér í tæknivillu strax í fyrsta leikhluta fyrir að gagnrýna störf dómaradúettsins sem féllu nokkuð illa í leikmenn beggja liða sem og áhorfenda sem létu óspart heyra í sér. Í öðrum leikhluta tóma heimamenn tvisvar leikhlé og á meðan Ágúst lagði upp leik sinna manna notaði Guðjón Skúlason bæði leikhléin til að reyna að fá sína menn til að hætta að væla yfir dómgæslunni og hafa gaman að leiknum. Í fjórða leikhluta hélt óánægjan með dómgæsluna áfram og var Ágúst sendur út úr húsi eftir að bekkurinn hjá Hamri fékk á sig tvær tæknivillur með stuttu millibili þegar um tvær mínútur voru eftir af leiknum og upphófst í kjölfarið mikil reikistefna sem leiddi af sér nokkra töf á leiknum, en hann kláraðist þó fyrir rest, en náði í raun litlu flugi eftir það.
 
Hjá gestunum átti Siggi Þorsteins stórleik með tröllatvennu þar sem hann skoraði 23 stig og reif niður 21 frákast auk þess sem hann gaf 5 stoðsendingar og varði 6 skot. Hörður Axel var heitur fyrir utan og setti einnig 23 stig, þar af 6 þrista, Gunnar Einarsson skoraði 18 stig en aðrir minna.
 
Hjá heimamönnum var Andre Dabney stigahæstur með 25 stig en Marvin Valdimarsson kom næstur með 14 stig og aðeins 17% nýtingu úr skotum utan af velli. Svavar Páll skoraði 13 stig og Viðar Örn 10 stig. Oddur Ólafs skoraði 5 stig og gaf 5 stoðsendingar á meðan Ragnar Ágúst skoraði 4 stig, en tók 13 fráköst.
 
 
Texti og myndir: Sævar Logi Ólafsson
Fréttir
- Auglýsing -