spot_img
HomeFréttirLangþráður sigur hjá Haukum

Langþráður sigur hjá Haukum

Haukar tóku á móti KR í kvöld í Schenkerhöllinni í 4. umferð Dominosdeildar Kvenna. Haukum hefur ekki gengið sem skildi að landa sigrunum þrátt fyrir að vera gríðarlega duglegar við að hirða fráköstin, og þá sérstaklega sóknarfráköstin, en léleg skotnýting hefur verið þeim til trafala. KR hefur heldur ekki gengið sem skildi og eru þær mjög fáliðaðar í framherjastöðinni þar sem að Helga Einarsdóttir, Bergdís Ragnarsdóttir og Hafrún Hálfdánardóttir eru allar frá vegna meiðsla. KR hafa þó náð að landa einum sigri þegar þær áttu magnaðan seinni hálfleik á móti Hamri.
 
Í kvöld var hins vegar kominn tími á Hauka að vinna, 83-81, en það var allt annað en auðveldur sigur. Eftir kaflaskiptan fyrri hálfleik þá var leikurinn í járnum í seinni hálfleik. Það þurfti magnað framtak frá Lele Hardy á loka sekúndunum en hún stal boltanum og setti niður tvo sniðskot, eitthvað sem var ekki búið að vera ganga vel hjá henni í leiknum þar sem hún var búin að misnota átta slík fram að þessu.
 
Annars átti Hardy gríðarlega flottan leik fyrir Hauka, ef misnotuðu sniðskotin eru talin frá, þar sem að hún var aðeins einum stolnum bolta frá þrefaldri tvennu ásamt því að vera með 5 stoðsendingar, en hún var einnig með 28 stig og 19 fráköst. Íris Sverrisdóttir sýndi í kvöld að hún hefur engu gleymt og splæsti hún í þrjá þrista og alls 15 stig. Dagbjört Samúelsdóttir átti einnig góðan leik, hún skoraði þrjá þrista og þar af einn gríðarlega mikilvægan þegar hún jafnaði fyrir Hauka í stöðunni 78-78. Sylvía Rún Hálfdanardóttir heldur áfram að sýna okkur hversu gríðarlega efnilegur leikmaður er þar á ferð en hún var næst framlagshæst hjá Haukum og með mjög góða skotnýtingu í öllum flokkum.
 
Hjá KR var Kelli Thompson potturinn og pannan í sóknarleik þeirra og skoraði hún 34 stig ásamt því að vera með 5 fráköst, 4 stoðsendingar og stela boltanum 6 sinnum. Bergþóra Holton Tómasdóttir var mjög góð fyrir KR og skoraði hún 12 stig og var einnig með 6 fráköst og 6 stoðsendingar. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir lét svo heldur betur til sín taka í þriðja leikhluta eftir að hafa verið skugginn af sjálfri sér í fyrri hálfleik, þegar hún smellti niður tveimur mikilvægum þristum fyrir KR á stuttu millibili og kveikti vel í þeim.
 
 
 
Mynd/ [email protected] – Lele Hardy sótti óttalaus að körfu KRinga eins og hermaur þrátt fyrir mörg mislukkuð sniðskot fyrr í leiknum til að tryggja Haukum sinn fyrsta sigur í Dominosdeildinni í ár.
Fréttir
- Auglýsing -