spot_img
HomeFréttirLangt ferðalag Njarðvíkinga

Langt ferðalag Njarðvíkinga

8:50

{mosimage}

Njarðvík leikur sinn fyrsta leik í Evrópukeppni eftir 15 ára hlé í dag í rúmlega 4100 km fjarlægð frá Njarðvík. Liðið leikur gegn rússneska liðinu CSK-VVS Samara kl 15 að íslenskum tíma í dag. Njarðvíkingar hófu ferðina á þriðjudagsmorgun þegar þeir flugu með Icelandair til Stokkhólms þar sem ætlunin var að fljúga áfram til Moskvu með SAS og þaðan með Aeroflot til Samara, en borgin Samara er á bökkum Volgu 800 km austan við Moskvu. Samkvæmt heimasíðu Njarðvíkur seinkaði þó flugi Icelandair og misstu þeir af flugi SAS frá Stokkhólmi en það leystist og þeir flugu með Aeroflot til Moskvu og svo áfram. En óheppnin elti þá áfram og töskurnar urðu eftir í Moskvu en þær skila sér vonandi til Samara sem fyrst.

Njarðvíkingar eru með alla leikmenn sína með en ljóst er að á brattann verður að sækja fyrir Njarðvíkinga í dag. Samaraliðið hefur fengið til sín tvo bandaríska leikmenn nú í haust, Omar Cooks frá belgíska félaginu Dexia og Kelvin Gibbs frá tyrkneska liðinu Darussafok auk þess sem Bosníumaðurinn Felix Kojadinovic kom til þeirra frá serbneska liðinu Voivodina. Flestir leikmanna Samara eru í kringum 2 metrana og því ljóst að mikil barátta er framundan hjá Friðriki Stefánssyni, Agli Jónassyni og Igor Bejlanski.

Þetta ferðalag Njarðvíkinga er lengsta ferðalag sem íslenskt félagslið hefur farið í, um 4100 km eru í beinni línu frá Njarðvík til Samara. Það er þó ekki lengsta ferðalag íslsensks liðs en A landslið karla hefur leikið í Bandaríkjunum og Kína og lengsta ferð þeirra innan Evrópu er til Georgíu í haust en frá Reykjavík til Tiblisi eru rúmir 4700 km í beinni línu. Það er svo aftur spurning hvort Georgía og borgin Samara eru í Evrópu þó ferðir íslenskra liða þangað hafi verið liður í Evrópukeppni.

Karfan.is hefur teiknað ferðalag Njarðvíkur á kort sem hér fylgir með, neðst á myndinni má svo sjá hvar Georgía er.

[email protected]

Kort: Google.com með breytingum gerðum af [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -