spot_img
HomeFréttirLangskotið sem kveikti neistann?

Langskotið sem kveikti neistann?

10:00

{mosimage}

Sigurður Elvar Þórólfsson blaðamaður á Morgunblaðinu skrifar í blaðið í gær athyglisverð grein undir dálknum, Á vellinum.

 

 

ÍSLENSKA landsliðið í körfuknattleik hefur á undanförnum árum og jafnvel áratugum verið í  „skugganum“ hvað varðar áhuga almennings og eru margar skýringar á því. Keppnisfyrirkomulagið var með þeim hætti að íslenska liðið var varla sýnilegt á Íslandi nema í æfinga- og vináttuleikjum. Árangur liðsins hefur ekki vakið heimsathygli – þrátt fyrir að liðið hafi landað ágætum sigrum. Sigurinn á Smáþjóðaleikunum í Mónakó sýnir að landsliðið er á réttri leið enda í fyrsta sinn í sögunni sem Ísland fagnar sigri á þeim leikum.

 

Ævintýraleg sigurkarfa Jakobs Sigurðarsonar gegn sterku liði Georgíu sl. miðvikudag fer í sögubækurnar sem ein af eftirminnilegustu sigurkörfum landsliðsins. Ég er ekki mjög minnugur á atburði sem eru liðnir en þegar ég sat í gær og renndi yfir landsleiki í huganum var aðeins eitt annað atvik sem ég mundi eftir sem gæti verið í líkingu við skot Jakobs. Þar var að verki Pálmar Sigurðsson, fyrrum leikmaður Hauka, en hann setti niður langskot frá miðju gegn Norðmönnum í C-deild Evrópumótsins árið 1986. Þriggja stiga línan var á þeim tíma ný af nálinni og Pálmar tryggði Íslendingum sigur, 75:72, og sæti í B-deild.

Sigurkarfa Jakobs var ekki eins mikilvæg fyrir stöðu Íslands í B-deild Evrópukeppninnar en kannski kveikir atburðurinn neista sem landsliðið þarf á að halda. Forráðamenn KKÍ og landsliðsþjálfari hafa sett skýr markmið. Ísland stefnir á að komast í Adeild Evrópumótsins. Háleitt markmið en nauðsynlegt – ætli menn sér að komast lengra og ná árangri. Ég skrifaði um leik Íslands og Georgíu í fimmtudagsblað Morgunblaðsins og í öllum flýtinum var ég búinn að gleyma því að í lið Íslands vantaði „Eið Smára“ körfunnar, Jón Arnór Stefánsson, sem leikur með Roma í einni af sterkustu atvinnumannadeildum heims. Jón hefði án efa hjálpað íslenska liðinu gegn Georgíu en það er greinilega meiri breidd í íslenska liðinu en margir halda. Jón kaus að tryggja stöðu sína í harðri samkeppni um stöður í ítalska liðinu. Landsliðsverkefnin stangast á við undirbúningstímabil liða í Evrópu og það er því erfitt fyrir leikmenn að velja á milli þess að standa sig vel í „vinnunni“ eða leika fyrir landsliðið.

 

Í leiknum gegn Georgíu voru aðeins tveir atvinnumenn, Logi Gunnarsson og Jakob Sigurðarson. Áhugamennirnir voru því í meirihluta. 

 

Það er erfitt að bera saman árangur landsliða í boltaíþróttum og í ljósi þess að íslenska  handboltalandsliðið hefur náð fínum árangri á undanförnum árum og komist inn á hvert stórmótið á eftir öðru, eru gerðar miklar kröfur til landsliðsins í körfuknattleik. Handboltalandsliðið setur íslensku þjóðina á hvolf af spennu einu sinni á ári á stórmóti. Slíkt hefur vantað hjá körfuknattleikslandsliðinu. Þá kemur að stóra vandamálinu. Það er mjög langt og erfitt verkefni að komast inn á stórmót. Kannski að „Jakobskarfan“ hafi kveikt neistann. Við komumst að því í dag þegar Ísland leikur gegn Lúxemborg ytra.

 

Morgunblaðið

Fréttir
- Auglýsing -