7:00
{mosimage}
Það hafa eflaust margir rekið augun í fréttir um helgina af ungum manni sem kom á óvart í Reykjavíkurmaraþoninu og varð í öðru sæti í sínu fyrsta hlaupi. Það vita kannski ekki allir að kappinn heitir Arnar Pétursson og er leikmaður með körfuboltaliði Breiðabliks og í U18 ára landsliði Íslands. Þá er hann sonur Péturs Hrafns Sigurðssonar fyrrverandi framkvæmdastjóra KKÍ.
Karfan.is heyrði í Arnari og spurði hvað hefði komið til að hann ákvað að hlaupa maraþon.
„Það var nú reyndar fyrir þremur árum sem mér datt fyrst í hug að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu en þá var ég bara þremur árum of ungur til að hlaupa, maður verður nefnilega að vera orðinn 18 ára til að mega taka þátt í hlaupinu, af hverju veit ég ekki. En það var fyrir tveimur vikum sem ég sagði fyrst við pabba og mömmu að ég ætlaði að taka þátt í hlaupinu í ár. Þau héldu að ég væri bara að grínast, og mamma trúði varla að ég væri að fara að hlaupa fyrr en að hlaupið var að byrja. Svo fannst mér bara gaman að geta sagt "ég er búinn að hlaupa maraþon"
Hvernig þróaðist hlaupið?
„Um leið og Steingrímur Sigfússon gaf merki um að hlaupið væri hafið sprettaði ég af stað, því í rauninni var eina markmiðið mitt fyrir hlaupið að komast á mynd á forsíðu Morgunblaðsins ef hún yrði af hlaupinu. Síðan ætlaði ég bara að hægja og einbeita mér að því að klára hlaupið. Eftir fyrstu tvo kílómetrana fann ég mér þrjá félaga sem litu út fyrir að vita hvað þeir væru að gera og plantaði mér fyrir aftan stærsta manninn, þannig tók hann mikinn vind sem hefði annars lent á mér. Allt gekk vel og eftir tíu kílómetra var millitíminn 39:41. Á tólfta kílómetra losnar önnur skóreimin hjá mér:"Ertu ekki að grínast!" Ekki gat ég hlaupið næstu 30 km með lausa reim þannig að ég stoppaði og þá byrjar að rigna, ég dríf mig eins og ég get og spretti síðan af stað því ekki ætlaði ég að missa af vindbrjótinum mínum. Allt gengur vel næstu kílómetra en síðan gefur hópurinn sem ég er að elta allsvakalega í og ég treysti mér ekki að elta þá. Ég hleyp bara á mínum hraða þangað til að annar hlaupari er búinn að ná mér og sá er með fimm gel-power brúsa í beltinu sínu þannig að hann hlýtur að vita hvað hann er að gera, ég ákveð að elta hann og geri það næstu 20 km eða svo, hann á í raun stóran þátt í því hve vel mér gekk í hlaupinu, ég var heppinn að hafa hann á undan mér. Á þessum 20 km tókst mér að rekast þrisvar sinnum í hælana á honum og við tókum fram úr öllum hópnum sem hafði skilið mig eftir á 16 kílómetrunum. Þegar við erum búnir að hlaupa einhverja 39 km ákveð ég að taka fram úr Jóhanni (hann lenti í þriðja sæti af Íslendingum) og kem í mark á tímanum 2:55:48 (Sjá myndband ). Algerlega búinn á því og fæ síðan að vita að ég er í öðru sæti af Íslendingum.“
Er þessi árangur körfuboltanum að þakka? Eða fannstu eitthvað undralyf í Bosníu í sumar?
„Ég held að þetta sé blanda af körfuboltanum og fótboltanum. Ég æfði báðar íþróttir þangað til ég var 15 ára þannig að maður hefur alltaf verið í mjög góðu hlaupaformi. Í körfuboltanum þarf maður kannski á meiri sprengikrafti að halda, í fótboltanum þurfti ég að geta hlaupið mikið þar sem ég var á kantinum og átti bæði að vera með fremstu mönnum í sókninni og að hjálpa til í vörninni. Það var nú frekar rólegt hjá mér í Bosníu þannig að kannski hefur hvíldin þar haft áhrif :). Ekki nema að pizzurnar á Mama mia hafi haft svona góð áhrif á mann.“
Á að snúa sér meira að svona langhlaupum?
„Ég er alla vega spenntur fyrir því að sjá hvað ég get gert í hlaupunum. Það hafa allnokkrir í fjölskyldunni minni staðið sig vel í hlaupum, systir mömmu var margfaldur Íslandsmeistari í spretthlaupum, afi minn og bræður hans voru mikilir hlaupagarpar og svo á Birgir Sævarsson frændi minn besta tíma Íslendinga í maraþoni á öldinni 2:35:51, aldrei að vita hvað maður gerir. Til að mynda er ég að fara að taka þátt í 10 km hlaupi á Meistaramóti Íslands núna á fimmtudaginn klukkan 18:00 á Laugardalsvelli. Það verður í fyrsta sinn sem ég hleyp á braut og gaman að sjá hvað kemur út úr þvi.“
Hvernig líst þér annars á næsta vetur með Blikum?
„Mér líst bara gríðarlega vel á þetta, við erum með flottan hóp og ég er bara mjög bjartsýnn. Mér líst virkilega vel á Hrafn sem þjálfara og svo æfum við líka á besta parketi landsins. Við erum búnir að styrkja liðið töluvert frá því í byrjun sumars og ég held að við eigum eftir að koma skemmtilega á óvart í vetur.“
Mynd: Snorri Örn Arnaldsson