Bakvörður undir 20 ára drengjaliðs Íslands Daníel Ágúst Halldórsson meiddist á fæti í byrjun leiks liðsins í gærkvöldi gegn Svíþjóð. Fór hann á bekkinn og eftir skoðun sjúkraþjálfara varð fljótt ljóst að hann myndi ekki taka frekari þátt í leiknum.
Í samtali við Körfuna fyrr í dag staðfesti Daníel að hann hefði fengið myndatöku í dag og ljóst væri að hann væri með brot í ristinni sem kæmi í veg fyrir að hann myndi spila meira með liðinu í sumar. Ljóst er að um nokkuð áfall er að ræða fyrir bæði leikmanninn og liðið, sem Daníel er byrjunarliðsmaður í.
Hann var þó nokkuð brattur er Karfan náði tali af honum, sagði að vissulega væri þetta leiðinlegt fyrir hann, en að hann hefði ekki áhyggjur af framhaldinu fyrir liðið, sem í næstu viku fer í A deild Evrópumótsins á Krít.
Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil