Íslenska landslið karla í körfuknattleik hefur hafið undibúning sinn fyrir komandi leiki í ágúst en þá tekur liðið þátt í forkeppni að undankeppni EM 2021, en undankeppnin sjálf hefst í vetur þar sem hún verður leikin í nokkrum landsliðsgluggum yfir tímabilið og inn á næsta tímabil einnig.
Í forkeppninni leikur Ísland fjóra leiki í ágúst, heima og að heiman, gegn Sviss og Portúgal, og þarf Ísland sigur í riðlinum til að tryggja sér sæti í undankeppninni sjálfri fyrir EM 2021. (Þar er búið að draga sigurvegara okkar riðils í ágúst í riðil með Serbíu, Finnlandi og Georgíu í undankeppninni).
Fyrst eru því mikilvægir leikir framundan hjá landsliðinu þar sem aðeins eitt lið fer áfram. Leikir Íslands eru þann 7. ágúst úti gegn Portúgal, hér heima laugardagana 10. og 17. ágúst í Laugardalshöllinni gegn Sviss og Portúgal, og svo er lokaleikurinn úti í Sviss þann 21. ágúst.
Hlynur Bæringsson, sem hafði ákveðið að hætta með landsliðinu síðastliðin vetur, mun leika með liðinu núna í þessum mikilvægu leikjum. Hann á að baki 125 landsleiki og er því reynslumesti leikmaður liðsins.
Hlynur svaraði beiðni sambandsins og þjálfara liðsins um að koma inn aftur núna í hópinn þar sem kom í ljós að tveir stórir leikmenn í sömu leikstöðu heltust úr lestinni stuttu fyrir upphaf æfinga að þá vantaði reynslumikinn mann sem er öllum hnútum kunnugur í leik liðsins.
Sambandi og þjálfarateymið eru Hlyni afar þakklát fyrir að bregðast skjótt við og svara kallinu og aðstoða hópinn í þessu mikilvæga verkefni.
Þá er einn nýliði í hópnum, en það er Frank Aron Booker, sem hefur leikið í háskólum í Bandaríkjunum og sem atvinnumaður í Frakklandi í vetur, en faðir hans Frank Booker, lék hér á landi á árum áður með Val, ÍR og Grindavík.
Æfingahópur landsliðsins er skipaður 15 leikmönnum:
Nafn · Félagslið (landsleikir)
Collin Pryor · Stjarnan (4)
Frank Aron Booker · ALM Évreux, Frakkland (Nýliði)
Gunnar Ólafsson · Keflavík (14)
Elvar Már Friðriksson · Njarðvík (42)
Hlynur Bæringsson · Stjarnan (125)
Hördur Axel Vilhjálmsson · Keflavík (78)
Jón Axel Guðmundsson · Davidson, USA (7)
Kristinn Pálsson · Njarðvík (13)
Hjálmar Stefánsson · Haukar (12)
Martin Hermannsson · Alba Berlin, Þýskaland (65)
Ólafur Ólafsson · Grindavík (32)
Pavel Ermolinskij · KR (69)
Ragnar Ágúst Nathanaelsson · Valur (44)
Tryggvi Snær Hlinason · Zaragoza, Spánn (33)
Ægir Þór Steinarsson · Regatas Corrientes, Argentína (57)
Þjálfari: Craig Pedersen
Aðstoðarþjálfari: Finnur Freyr Stefánsson og Baldur Þór Ragnarsson
Þeir leikmenn sem voru valdir í hópinn en eru meiddir og geta því ekki tekið þátt eru þeir Kári Jónsson og Kristófer Acox. Sigurður Gunnar Þorsteinsson gaf ekki kost á sér að þessu sinni þar sem hann þarf að fara út til móts við sitt nýja félag í Frakklandi. Þá ætlaði Haukur Helgi Briem Pálsson að taka þátt í verkefninu en hann hefur verið að ná sér af meiðslum eftir tímabilið, en það hefur gengið hægar en búist var við. Einnig eru ákvæði í samning hans við sitt nýja félag í Rússlandi sem gera það að verkum að þrátt fyrir góða heilsu gæti hann ekki gefið kost á sér að þessu sinni.