spot_img
HomeFréttirLandslið lögreglumanna í fjórða sæti Evrópumótsins 2022

Landslið lögreglumanna í fjórða sæti Evrópumótsins 2022

Lokamót Evrópukeppni lögregreglulandsliða fer fram þessa dagana í Limoges, Frakklandi.
Tveir riðlar eru á mótinu þar sem að í A riðli eru með Íslandi lið Frakklands, Litháen og Lúxemborg. Í hinum riðlinum, B, eru Þýskaland, Grikkland, Belgía og Ítalía.

Lið Íslands skipað lögreglumönnum m.a. frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum, Reykjavík, Suðurlandi, Norðurlandi vestra, Vesturlandi og Ríkislögreglustjóra. Þjálfarar eru þeir Jón Þór Eyþórsson, Stykkishólmi og Ólafur Örvar Ólafsson, Keflavík.

Hér fyrir neðan má sjá dagbókarfærslu fimmta leikdags frá þjálfurum liðsins:

26.06.2022

Leikið til úrslita um 1-4 sæti.

Ísland með vægast sagt laskað lið etur kappi við Litháen.
Ísland náði að halda i við spræka Litháa fyrsta leikhlutann þó að fyrirliðan, Magna Hafsteinsson hafi vantað í liðið sem og Atla Barðason sem voru komnir á sjúkralistann. Er líða tók á leikinn fóru Litháar að auka hraðan og uku forystuna verulega. Í hálfleik tilkynntu þeir Andrés Kristleifs og Egill Egils að þeir væru “out”. Andrés með snúinn ökla og Egill með handónýta mjöðm. Níels Dungal einnig tæpur, með 50 ára gamlan kálfa sem var nánast búinn að fá nóg.

Eins og það hafi ekki verið nóg þá voru Snorri Þorvalds og Magnús Páls komnir í villuvandræði. Nú þurfti að leita langt á bekkinn. Arnar Guðjón Skúlason reynir sitt allra besta að laga stöðuna. Setur 10 stig á skömmum tíma og spilar fanta vörn. Skrínaði einn Litháann svo illilega að stúkan tók andköf, menn héldu að lungun í Litháanum hefðu fallið saman við áreksturinn, höggið bergmálaði í höllinni.
Til að gera langa og leiðinlega sögu stutta þá sigruðu Litháar leikinn með miklum “naumindum”. Ísland varð að láta sér fjórða sætið duga …. að sinni. Stefnt er að sjálfsögðu að gera betur næst.

Úrslitaleikurinn var á milli Grikkja og Þjóðverja. Allir áhorfendur á bandi Þjóðverja, allir búnir að fá upp í kok af Grikkjunum, bæði innan vallar sem utan.

Því miður fór svo að Grikkirnir sigruðu úrslitaleikinn, sigra mótið í fjórða skiptið í röð. Það verður að gefa Grikkjunum það að þeir kunna þetta sport.

Eftir að hafa sótt nánast hálft lið Íslands á sjúkrahúsið þá er íslenski hópurinn nú á heimleið eftir gott og skemmtilegt mót.

Fyrrverandi formaður Keflavíkur ákvað að rifta samning við Hannes Inga þar sem drengurinn féll á þrekprófi sem lagt var fyrir drenginn eftir leikinn við Litháen. Drengurinn er bara ekki í nægilega góðu hlaupaformi. Skellur.

Orðið á götunni segir að Magni Hafsteins og Magnús Páls séu ákveðnir að taka þátt í allavega einu móti til viðbótar sem verður eftir 3-4 ár. Magni þá nánast áttræður og Magnús að nálgast sjötugt.

Takk fyrir okkur og áfram Ísland.

Fréttir
- Auglýsing -