Los Angeles Lakers unnu í nótt sinn 15. NBA-titil þegar þeir lögðu Orlando Magic að velli, 86-99, í Orlando. Þannig unnu þeir sinn fjórða leik, en Magic vann aðeins einn í rimmunni. Þessi titill markar nokkur tímamót þar sem þetta er tíundi titill Phil Jackson sem þjálfari og komst hann með því upp fyrir goðsögnina Red Auerbach, sem vann níu titla með Boston Celtics á sjötta og sjöunda áratugnum á meðan einstakri sigurhrinu liðsins stóð. Þetta er líka fjórði titill Kobe Bryant og sá fyrsti í sjö ár, hans fyrsti síðan Shaquille O´Neal yfirgaf liðið og hélt til Miami, þar sem hann vann titil árið 2006.Nánar hér að neðan…
Lakers voru með góð tök á leiknum í nótt allt frá því í fyrri hálfleik og eftir það varla spurning um hvernig færi. Það sama var uppi á teningnum í einvíginu, því að þrátt fyrir að Magic hafði komið sér inn í einvígið með sigri í þriðja leik sýndi sigur Lakers í fjórða leiknum hvers þeir voru megnugir. Ekki má þó taka af Magic að þeir fóru erfiða leið inn í úrslitakeppnina þar sem þeir lögðu bæði meistara Boston Celtics og Cleveland Cavaliers með LeBron James í broddi fylkingar á leið sinni. Þetta var hins vegar kvöld Kobe Bryant sem skoraði 30 stig og var valinn besti maður úrslitanna. Hann getur því loks stigið út úr skugga Shaqs sem hefur, eins og honum einum er lagið, þrátt fyrir að hafa farið í sumarfrí fyrir tveimur mánuðum, sett mark sitt á úrslitin með ummælum í viðtölum og Twitter-færslum. Það hefur farið ósegjanlega í taugarnar á Kobe, sem líkti umræðunni við pyntingar. Hann þarf vart að heyra þetta mikið oftar því að á hátindi ferils síns sem leikmaður og einungis 30 ára gamall, er hann umkringdur hæfileikaríkum leikmönnum líkt og Pau Gasol, Trevor Ariza, Andrew Bynum og Lamar Odom, að ógleymdum góðvini sínum Derek Fisher sem sneri aftur til liðsins fyrir tveimur árum eftir þriggja ára dvöl með Golden State og Utah. Eftir niðurlægingu í úrslitunum gegn erkifjendunum Boston Celtics í fyrra kom þessi hópur sterkari inn í ár og eftir að hafa hikstað lítið eitt gegn baráttuglöðum Houston Rockets og Denver Nuggets, sýndu þeir hvað í þeim bjó. Með þennan meistaratitil í hendi í bland við hæfileika og sigurvilja Kobe Bryants og það sem býr í liðsfélögum hans skyldi engan undra þó að fleiri titlar myndu enda í greipum þeirra á næstu árum.
Spurning er hvort Jackson muni leiða þá áfram, en hann hefur ekki gefið neitt út um framtíð sína. Eftir leikinn sagði hann: „Ég kveiki mér í vindli í kvöld, til minningar um Red.“ Hann hefur færi á að komast enn ofar í sögubækurnar. Í gær var hins vegar fagnað og allt annað fær að bíða betri tíma.
Mynd/ NBA.com