Ólafur Þór Jónsson skrifar frá Nicosia
Eftir rúmlega 17 tíma ferðalag er landsliðið komið til Nicosia í Kýpur þar sem leikið verður gegn heimamönnum á laugardag kl 14:00 að íslenskum tíma.
Ferðalagið hófst í Laugardalshöll klukkan fimm í nótt en millilent var í París. Ekki gafst langur tími þar á milli hlaupa fyrir utan fastra liða á borð við crossaint og merci. Á þessu ferðalagi komumst við þó að tvennu um Kýpur, landið er greinilega vinsæll ferðamannastaður eldri borgara en fyrir utan landsliðið og fylgifiska var engin undir 60 ára í flugvélinni til Kýpur. Hitt er að kýpverjar keyra á öfugum vegarhelmingi eins og bretar.
En við erum ekki komin hérna út til þess eins að kynnast Kýpur betur heldur er undankeppni Eurobasket aðalmálið. Ísland getur komið sér í góða stöðu með sigri á heimamönnum á laugardag en Kýpur tapaði örugglega fyrir Belgíu á miðvikudagskvöldið 65-46.
Vitað var að Belgía væri með sterkt lið en það gefur ákveðna von að Kýpur hafi einungis sett 46 stig. Ef rýnt er í tölfræði leiksins kemur svo í ljós að Kýpur var með 10 körfur úr opnum leik og 22 stig liðsins komu úr vítaskotum.
Í öllum leiknum átti Kýpur tvær stoðsendingar, tvær. Liðið var allan tímann undir og virkuðu þungir. Leikmenn Kýpur líta út fyrir að vera þyngri og stærri leikmenn en þeir íslensku en við eigum að geta keyrt yfir þá með hraða og íþróttamennsku.
Karfan.is er með landsliðinu í för um mun koma með fréttir um leið og þær berast auk þess sem við munum vera með viðtöl, umfjallanir í kringum leikina og fleira áhugavert. Snapchatið er með í för og munum við sína aðstöðuna hér í Kýpur á morgun þar. Snapchatið er Karfan.is.
Mynd / Þorsteinn Eyþórsson