Ólafur Ólafsson er mikill kyndingameistari enda hefur kappinn ríkulega innistæðu fyrir látunum í sér, Stjörnuhelgi KKÍ er framundan þar sem Ólafur mun reyna að endurheimta troðslumeistaratitilinn. Karfan.is náði smá spjalli af Ólafi sem hefur ákveðið að setja mikla pressu á sjálfan sig með því að ögra öðrum háloftafuglum í íslenskum körfuknattleik.
,,Ég skora á alla erlenda leikmenn sem og íslenska til að mæta mér í troðslukeppninni, þ.e.a.s. ef þið þorið að koma og sýna hvað þið getið,“ sagði Ólafur sem er í dúdnurformi um þessar mundir.
,,Ef einhver þorir í karlinn þá er bara að skrá sig á [email protected] og ég hvet líka Þorleif Ólafsson eða Lalla bróðir að mæta til leiks. Hann þykist reyndar vera eitthvað meiddur, Lalli minn hættu þessu væli og aumingjaskap. Nú verður þú bara að sýna að þetta var bara grís hjá Semaj Inge þegar hann ,,put you on a poster,“ sagði Ólafur en Inge tróð rækilega í leik gegn Grindavík á dögunum þar sem Þorleifur reyndi að verja skotið.
,,Endilega skráið ykkur sem flestir, ef þið hafið pung í það,“ sagði Ólafur kotroskinn og eflaust hefur hann nokkrar töfratroðslur uppi í erminni.