spot_img
HomeFréttirKvennalið Hauka 2009-2010

Kvennalið Hauka 2009-2010

Umtalsverðar breytingar hafa orðið á Íslandsmeistaraliði Hauka þar sem þær Kristrún Sigurjónsdóttir, Guðbjörg Sverrisdóttir og Helena Hólm eru horfnar á braut. Þá verður Slavica Dimovska ekki með Haukum en hún var einn albesti leikmaður deildarinnar á síðustu leiktíð. Henning Henningsson þjálfari Hauka tók við liðinu í sumar þegar Yngvi Gunnlaugsson gerðist þjálfari 1. deildarliðs Vals en Henning var aðstoðarmaður Yngva á síðustu leiktíð og stjórnaði kvennalandsliðið Íslands í sumar á Smáþjóðaleikunum og í síðari hluta Evrópukeppninnar.
,,Ég kem í toppformi inn í starf Hauka eftir sumarið, það er eins gott að stelpurnar verði í jafn góðu formi og ég, þá eru allir sáttir,“ sagði Henning á léttu nótunum en á meðan hann stýrði kvennalandsliðinu í sumar fékk hann aðstoð með kvennalið Hauka. ,,Ég var með aðstoðarmann sem sá um sumaræfingarnar og þær byggðust aðallega upp á ungum leikmönnum svo sumarið gekk ágætlega en nú er allt komið á fullt,“ sagði Henning sem tekur við nokkuð breyttu Haukaliði.
 
,,Kristrún fór í Hamar en við fengum Guðrúnu Ámundadóttur til baka. Guðbjörg Sverrisdóttir fór einnig í Hamar og þá fór Helena Hólm til Danmerkur og þá liggur það líka fyrir að við munum leika með nýjan erlendan leikmann þar sem Slavica kemur ekki til baka. Þá höfum við einnig fengið Ragnheiði Theodórsdóttur frá Val,“ sagði Henning en sögunni lýkur ekki hér þar sem nokkuð af leikmönnum úr yngri flokkum mun láta að sér kveða í vetur.
 
,,Ég er að fá nokkrar stelpur upp úr yngri flokkum sem eru á aldrinum 15-17 ára og þær hafa æft mjög vel í sumar og verða örugglega í hópnum í vetur. Þeim verður bara kastað út í djúpu laugina, annað hvort eru leikmenn tilbúnir í það eða ekki,“ sagði Henning ákveðinn en líkast til mun hann leika eitthvað án Telmu B. Fjalarsdóttur í upphafi leiktíðar. ,,Telma verður frá næstu 4-6 vikurnar þar sem hún fór í aðgerð en þá fá aðrir leikmenn bara að spreyta sig á meðan,“ sagði Henning en aðspurður um sterkustu liðin sagði Henning:
 
,,Ég áfellist engan sem horfir til KR og Hamars því þau lið hafa bætt hvað mest við sig og óeðlilegt að ætla annað en að þessi tvö lið verði á toppnum,“ sagði Henning sem er bjartsýnn á komandi tímabil.
 
,,Æfingar hafa gengið vel en við höfum ekki sest niður og sett okkar markmið fyrir veturinn en við munum láta að okkur kveða og það verður ekkert frítt hjá okkur,“ sagði Henning en hver er staða hans í dag gagnvart landsliðinu?
 
,,Ég er búinn að hitta formann KKÍ og formann landsliðsnefndar og það er bara verið að fara yfir þessi mál sem og áframhaldandi þátttöku á Evrópumótinu. Ég einbeiti mér bara að Haukum á meðan enda eru engin landsliðsverkefni á næstunni,“ sagði Henning sem reyndar lýsti ekki yfir áhuga á því að halda áfram með liðið. ,,KKÍ hefur áhuga á því að hafa mig áfram og vildu ræða þetta mál við mig á þeim nótum,“ sagði Henning svo enn er óljóst hver verður næsti þjálfari kvennalandsliðs Íslands.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -