spot_img
HomeFréttirKvennaboltinn hefst í dag

Kvennaboltinn hefst í dag

10:45

{mosimage}

 

(Haukakonur eiga titil að verja frá því í fyrra. Helena og Pálína verða ekki með í titilvörninni) 

 

Keppni í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik hefst í dag með þremur leikjum sem hefjast kl. 16:00 og 17:00. Haukakonur eiga Íslandsmeistaratitil að verja en nú þegar á undirbúningstímabilinu hafa þær misst tvo af titlum sínum frá síðustu leiktíð.

 

Tveir leikir fara fram kl. 16:00 í dag en það eru viðureignir Keflavíkur og Fjölnis og svo Grindavíkur og Hamars. Íslandsmeistarar Hauka mæta svo KR að Ásvöllum kl. 17:00.

 

Töluverðar breytingar hafa orðið á liðunum í kvennaboltanum í ár en Keflavíkurkonur leika nú án þeirra Birnu Valgarðsdóttur og Svövu Stefánsdóttur sem báðar ganga með barni. Þá er miðherjinn María Ben Erlingsdóttir við nám í Bandaríkjunum. Bakvörðurinn Pálína Gunnlaugsdóttir kom frá Haukum til Keflavíkur og ljóst að silfurliðið frá því í fyrra hefur tekið nokkrum eðlisbreytingum.

 

Keflavíkurliðið er nokkuð lágvaxnara en í fyrra en það hefur ekki hindrað þær í að vinna Poweradebikarkeppnina sem og keppni meistara meistaranna. Fjölniskonur eru því ekki öfundsverðar að mæta Keflavík í fyrstu umferð þar sem þær eru með tiltölulega ungt lið sem vann sér inn þátttökurétt í IE deildinni á síðustu leiktíð.

 

Hildur Sigurðardóttir er gengin í raðir KR, síns gamla félags, og verður fróðlegt að sjá hvernig Grindvíkingum mun vegna án hennar en undirbúningstímabilið hjá gulum hefur verið upp og ofan. Grindavík mætir Hamri í dag en Hamar teflir fram fyrrum leikmanni Keflavíkur, LaKiste Barkus, sterkum bakverði sem er mikil ógn í báðum endum vallarins.

 

Íslandsmeistarar Hauka fá svo KR í heimsókn þar sem systurnar Sigrún og Guðrún Ámundadætur mæta sínu gamla félagi, Haukum, í fyrsta sinn í úrvalsdeild. KR eru nýliðar í deildinni og þykja fyrirfram vera síðri aðilinn til að vinna leikinn. Þá tefla Haukar einnig fram breyttu liði frá því í fyrra en í sumar fengu þær mikinn liðsstyrk í Vesturbæjarmiðherjanum Telmu B. Fjalarsdóttur sem hefur merkilegt nokk aldrei náð að rata inn í landsliðið, hvernig sem á því nú stendur.

 

Það verður því nóg um að vera í kvennaboltanum í dag svo fjölmennum á vellina og látum vel í okkur heyra.

Fréttir
- Auglýsing -