spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaKurteisisheimsókn Kópavogsliðsins í sveitina

Kurteisisheimsókn Kópavogsliðsins í sveitina

Á Flúðum mættust í kvöld lið Hrunamanna og Breiðabliks. Þau keppa í 1. deild karla. Staða liðanna var ólík þegar deildarkeppninni var slegið á frest vegna farsóttarinnar. Blikar höfðu nánast tryggt sér sæti í  úrvalsdeild að ári en Hrunamenn höfðu ekki að neinu að keppa. Hrunamenn brugðust við pásunni með því að segja upp samningum sínum við erlendu leikmennina Carlo Lebo og Corey Taite en Corey er stigahæsti leikmaður deildarinnar og vafalítið einn besti leikmaður deildarinnar. Inn í hóp heimamanna var nú kominn hreppsnefnarfulltrúinn, pípulagningamaðurinn, aðstoðarþjálfarinn og fyrrum fyrirliði Uppsveitaliðsins, Sigurður Sigurjónsson, frá myndarbýlinu Kotlaugum í Hrunamannahreppi. Sigurður skoraði 5 stig í kvöld.

Gestirnir hófu leikinn af krafti. Miðherjinn sterki, Sveinbjörn Jóhannesson, byrjaði á því að merkja sér vítateiginn sem sitt yfirráðasvæði og fór af krafti framhjá Ingva Frey Óskarssyni, miðherja Hrunamanna, og skoraði með sniðskoti. Hann virtist hafa lítið fyrir því. Á eftir fylgdi hver karfan á eftir annarri. Heimamenn svöruðu ekki fyrr þeir höfðu lagt 11 stiga forskot upp í hendur gestanna. Um miðjan leikhlutann skipti Pétur Ingvarsson, þjálfari Breiðabliks, öllu byrjunarliðinu út af og þannig skiptingar átti hann eftir gera oft í leiknum. Forysta Breiðabliks var allan leikinn örugg. Pétur og hans menn sýndu drengskap sinn í verki með því að sökkva ekki reynslulitlu liði Hrunamanna eins og þeir hefðu vel getað gert hefðu þeir teflt fram sínum reyndustu og bestu leikmönnum svo til allan leikinn. Pétur dreifði mínútunum og fékk þannig mátulega viðstöðu fyrir sína menn og eitthvað út úr leiknum annað en stigin fyrir sigurinn. Árni Þór gaf sínum bestu mönnum líka pásur og allir leikmenn á skýrslu beggja liða höfðu alvöru hlutverk í leiknum.  

Leikurinn var aldrei spennandi. Hann var þó leikinn af þokkalegum krafti en þó af prúðmennsku og bróðerni. Ágætis samleiksköflum brá fyrir en oft í vetur hefur betur útfærður varnar- og sóknarleikur borið fyrir augu áhorfenda á Flúðum. Hrunamenn skoruðu 69 stig og Breiðablik 108.

Samuel Prescott Jr. var stigahæstur í liði Blika með 19 stig. Snorri Vignisson skoraði 16 stig, Gabríel Möller og Rubiera Alejandro 14. Kristinn Marinósson og Sveinbjörn voru líka góðir í liði Breiðabliks þótt þeir hafi ekki leitt í tölfræðiþáttunum. Yngvi Freyr var bestur Hrunamanna með 17 stig, 11 fráköst og 6 stoðsendingar, Eyþór Orri skoraði 11 stig og gaf 6 stoðsendingar og Þórmundur Smári skoraði 9 stig.

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Brigitte Brugger)

Umfjöllun / Karl Hallgrímsson

Fréttir
- Auglýsing -