22:49
{mosimage}
(Kristrún Sigurjónsdóttir)
Kristrún Sigurjónsdóttir átti enn einn stórleikinn fyrir Hauka í kvöld þegar toppliðið lagði Íslandsmeistara Keflavíkur 80-77 að Ásvöllum. Haukar eru ósigraðir heima og hafa verið á mikilli siglingu undanfarið. Karfan.is ræddi við Kristrúnu í leikslok en hún gerði 28 stig í leiknum og var ánægð með baráttuviljann í Haukaliðinu.
,,Já, það er ekki hægt að segja annað en að það sé hörku karakter í liðinu. Við erum með virkilega sterkan heimavöll og vissum að Keflavík væru komnar á gott skrið en við ætlum okkur að gera liðum það erfitt að koma á okkar heimavöll til að sækja sigur,“ sagði Kristrún. Haukar voru undir nánast allan leikinn og þakkaði Kristrún góðum varnarleik þennan sigur.
,,Hjartað hjá okkur er í vörninni og þetta bara virkaði hjá okkur í dag. Við erum líka að fá opnu skotin okkar því við höfum sterka leikmenn í teignum og gott flæði fyrir utan svo við erum ánægðar með jafnvægið í okkar leik þessa dagana,“ sagði Kristrún en þrátt fyrir manneklu á æfingum eru Haukar á blússandi siglingu.
,,Við höfum verið fámennar á æfingum og samkeppnin minni en það eru bara allir að leggja virkilega mikið á sig,“ sagði Kristrún og svaraði því vitaskuld neitandi þegar hún var spurð að því hvort Haukar ætluðu ekkert að fara að gefa toppsætið eftir!