Kristófer Breki Gylfason leikmaður Grindavíkur var ánægður í leikslok gegn ÍR, en kappinn spilaði frábærlega bæði í vörn og sókn, og er virkilega vaxandi leikmaður sem hver einasti leikmaður og þjálfari vill hafa í liði sínu; berst eins og ljón – gefur sig allan í verkefnið, og að þessu sinni var uppskeran góð.
Karfan ræddi við Kristófer Breka eftir leik og byrjaði á að hrósa honum fyrir góðan leik:
“Takk fyrir – þetta er án efa einn af mínum betri leikjum á þessari leiktíð. En ég er ánægður með sigurinn fyrst og síðast – það er það sem öllu skiptir.
Það var ekki að sjá að við myndum gera neinar rósir í þessum leik þegar maður spáir í að við mættum í rauninni ekki til leiks fyrr en eitthvað um 3 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik og við átján stigum undir. Við tókum okkur saman í andlitinu og komumst inn í leikinn með baráttu og dugnaði og tókst að landa sigrinum með þessari rosalegu körfu frá EC á síðustu stundu.”
Hafa þjálfaraskiptin haft jákvæð áhrif á leik ykkar?
“Já, það finnst mér. Tempóið er orðið betra á æfingum og ég held að við séum búnir að þjappa okkur vel saman. Megum bara ekki mæta svona hauslausir í neinn leik eins og í fyrri hálfleik núna. Við erum með mjög gott lið sem er í framför og ekki spurning að við ætlum að bíta hressilega frá okkur í úrslitakeppninni – við erum með það góðan hóp og þjálfara að við eigum alveg að geta slegist um þann stóra,” sagði Kristófer Breki að lokum.