Borgnesingar eru á fullu að þétta raðir sínar fyrir komandi átök í 1. deild karla. Í morgun var tilkynnt að Kristófer Már Gíslason myndi snúa aftur í Borgarnes eftir stutta veru í Hveragerði.
Kristófer sem er uppalinn hjá Skallagrím skipti yfir til Hamars í Hveragerði um síðustu áramót. Þar var hann með 5,4 stig að meðaltali fyrir Hamar.
Í tilkynningu Skallagríms segir: „Ánægja er með að fá Kristófer aftur í gult og grænt en hann er uppalinn Skallagrímsmaður og leikur stöðu bakvarðar. Samningur hans er til tveggja ára.“
Fyrr í vikunni var einnig tilkynnt að samningar hefðu verið endurnýjaðir við þá Kristján Örn Ómarsson og Almar Örn Björnsson. Samkvæmt Borgnesingum eru fleiri tíðinda að vænta frá leikmannamálum Skallagríms. Manuel Rodriquez tók við þjálfun liðsins í sumar en liðið féll úr Dominos deild karla á síðustu leiktíð.