Skv. heimildum körfunnar er góður möguleiki á því að Kristófer Acox söðli um og muni skarta rauðri Valstreyju þegar tímabilið hefst. Hann myndi þá fylgja Pavel Ermolinski, Jóni Arnóri Stefánssyni og Finni Frey Stefánssyni þjálfara sem hafa allir fært sig yfir til Vals.
Kristófer er þó samningsbundin KR og skv heimildarmanni þá mun KR ekki sleppa leikmanninum svo glatt.
Þá er komið ákveðið kurr í aðstandendur liða í Dominos-deildinni vegna framgöngu Vals í leikmannamálum en Kristófer er ekki eini samningsbundni leikmaðurinn sem Valsmenn hafa rætt við að sögn heimildarmanna. Skv. heimildum Körfunnar hafa Valsmenn einnig rætt við samningsbundinn erlendan leikmann liðs í Dominos-deildinni sem og fleiri leikmenn.
Valur hefur enda ákveðna yfirburðastöðu gagnvart öðrum liðum deildarinnar þegar kemur að aðgangi að fjármagni(eins og Kjarninn greinir frá hér). Ekki eru allir á eitt sáttir við þetta og kallaði einn viðmælandi Körfunnar þetta “financial doping” sem þýðir að þarna sé um að ræða fjármagn sem kemur ekki til vegna rekstrar liðsins.
Það liggur allavega alveg fyrir að Valsmenn eru ekki í þessu til að vera bara með.