Höttur á erfitt með að finna fyrsta sigurinn í Domino's deild karla. Liðið hefur nú spilað 8 leiki og tapað þeim öllum. Nú síðast gegn ÍR í Hertz hellinum 95-81.
Hött skortir ekki varnarleik ef eitthvað er að marka tölfræðivísa liðsins það sem af er vetri. Höttur á bara erfitt með að skora boltanum. Fyrirfram hefði mátt halda að þessi tvö lið myndu jafna hvort annað úr þar sem ÍR er þokkalegt sóknarlið en ákaflega slakir varnarlega séð. Annað var hins vegar uppi á teningnum í kvöld.
Sóknin hjá ÍR virtist hafa farið í gegnum endurnýjun lífdaga. Boltinn gekk og opnu skotin fundust. Kristján Pétur kom af bekknum og setti 17 stig í röð í 2. hluta. Varnarlega voru ÍR-ingar mun sprækari en oft áður.
Leikur Hattar var aftur á móti ekki upp á marga fiska – beggja vegna miðjulínunnar. Höttur tapaði 11 boltum í fyrri hálfleik og mikið til vegna varnar ÍR. Liðið hitti einnig illa fyrir utan þriggja stiga línuna.
Staðan í hálfleik var 52-36 og allt annað að sjá ÍR liðið frá því í síðasta heimaleik gegn Haukum.
Hressara lið frá Egilsstöðum mætti til leiks í seinni hálfleik. Mun betri sókn þó varnarleikurinn héldi áfram að vera slakur. ÍR að sama skapi gaf eftir í vörn (Höttur tapaði t.d. engum bolta í 3. hluta) en hélt uppteknum hætti í sókn. Leikurinn varð mun jafnari og hefðu Hattarmenn mætt beittari á völlinn í fyrri hálfleik hefðu úrslitin getað orðið allt önnur.
ÍR-ingar unnu mikilvægan sigur á Hetti 95-81 og virðast hafa fundið hvatann til að spila körfubolta aftur.
Jonathan Mitchell leiddi ÍR-inga með 22 stig og 11 fráköst en maður leiksins var vafalítið Kristján Pétur Andrésson sem kom inn á af bekknum í 2. hluta og lét rigna þristunum. Hjá Hetti átti Mirko mjög góðan leik með 28 stig 11 fráköst, þar af 5 í sókn.