Kristján Pétur Andrésson leikmaður ÍR var logandi í Hertz hellinum í gærkvöldi. Hann kom inn á af bekknum í 2. hluta leiks ÍR og Hattar og hóf að láta rigna þristum af öllum stærðum og gerðum en hann endaði með 19 stig. Karfan.is heyrði í Kristjáni eftir leikinn og spurði hvað hafi verið í gangi.
"Ég tók eiginlega ekkert eftir því hvað ég var búinn að skora mikið," sagði kappinn hógvær. "Þetta var bara svona go-with-the-flow dæmi."
Kristján sagði ÍR-inga vera búna að fá mikla gagnrýni undanfarið og réttmæta. "Við erum búnir að vera drullulélegir í vetur. Það er ekkert leyndarmál. Ég er bara þannig týpa að ég nota alla svona neikvæðni bara sem hvatningu fyrir næsta leik."
Brosandi sagðist hann hafa hlustað á góðan útvarpsþátt um morguninn sem hafði kveikt heldur betur undir honum. "Svo fór ég í góðan hamborgara hjá góðum ÍR-ingi, Hjálmari Sigurþórssyni í gærkvöldi. Hann hefur líklegast eitthvað kveikt í mér líka."
Þetta var fyrsti leikur Kristjáns eftir meiðsli á öxl undan farið. Hann var með klemmda taug í axlarliðnum og því fylgdu miklir verkir. "Ég ætlaði að vera með í þessum fræga Haukaleik um daginn en var ómögulegur rétt fyrir leik." Kristján segist hafa fengið gott nudd hjá almennilegum sjúkraþjálfara og sé nú orðinn klár í slaginn.
Ekki veitir ÍR-ingum af.
Mynd: Bára Dröfn