Kristinn Marinósson hefur gengið í raðir ÍR-inga fyrir komandi leiktímabil og hefur samið við félagið til tveggja ára. Þetta staðfesti formaður kkd. ÍR í samtali við Karfan.is
Kristinn Marinósson er uppalinn Haukamaður og lék með félaginu á síðustu leiktíð sem sjötti maður með tæplega 24 mínútur í leik. Kristinn skoraði 6,1 stig að meðaltali í leik og tók 4,4 fráköst síðasta vetur. Kristinn er fínasta þriggja stiga skytta með um 33% nýtingu síðastliðin 4 ára með Haukum í úrvalsdeild.
ÍR-ingar hafa ekki setið auðum höndum í sumar og hafa heldur betur bætt við sig öflugum leikmönnum. Einn besti hreini miðherji deildarinnar, Stefán Karel Torfason, gekk í raðir félagsins fyrr í sumar og bakvörðurinn öflugi, Matthías Orri Sigurðsson er kominn aftur eftir stutta dvöl í Bandaríkjunum.
Kristinn bætist því við í þennan öfluga hóp en ÍR-ingar misstu hins vegar Björgvin Hafþór Ríkharðsson til Tindastóls fyrr í sumar.
Mynd: Kristján Pétur Andrésson, formaður kkd. ÍR og Kristinn Marinósson handsala tveggja ára samning hans við félagið. (kkd. ÍR)