spot_img
HomeFréttirKristinn Friðriks spáir í bikarúrslitahelgina

Kristinn Friðriks spáir í bikarúrslitahelgina

Kristinn Friðriksson fyrrum leikmaður og þjálfari í úrvalsdeildinni henti á blað sínum skoðunum varðandi bikarleikina í Höllinni nú um helgina. Kristinn er þekktur fyrir allt annað en að liggja á skoðunum sínum. Hér kemur nokkuð ítarleg greining á því hvernig Kiddi telur að helgin muni þróast. 
Ég held að það muni enginn leikmaður koma á óvart með góðum leik, því allir lykilmenn liðanna eru klassaleikmenn og ber skylda að eiga í versta falli góðan dag. Slíkt getur hinsvegar oft brugðist og ef einhver af þessum lykilleikmönnum á sérstaklega slæman dag í þessum leik mun það líklega koma mér eitthvað á óvart, því vettvangurinn bíður ekki uppá slíkt; umgjörðin og andrúmsloftið á að vera næg hvatning til að góðir leikmenn og lið spili vel.
 
Það sem Grindavík hefur framyfir Stjörnuna er dýptin á bekknum, bæði hvað varðar getu og reynslu. Liðið er ríkjandi Íslandsmeistari og það er oft gott að hafa slíkt belti á sér þegar spilað er stórleik sem þennan. Ég held að sökum sérstakra kringumstæðna, þ.e. þetta eru bikarúrslit og varnaráherslan mikil á stærstu nöfnin, að menn eins og Þorleifur Ólafs, Sigurður Gunnars og Jóhann Ólafs fyrir Grindavík, Marvin Valdimars, Jovan Zdravevski og Dagur Jóns þurfi að stíga fram fyrir skjöldu og gera heimtingu á titlinum „MVP“ því þeir geta ómögulega vitað hvenær þetta tækifæri bankar næst á dyrnar. Allir þessir leikmenn hafa mismikla hæfileika til þess að breyta gangi leiks en Jovan, Þorleifur, Marvin og Jóhann eru klárlega leikmenn sem hafa gert það og þurfa að hafa hausinn sérlega vel undirbúinn.
 
Ég held að Teitur Örlygsson hafi áhuga á því að stjórna hraða leiksins, ekki fara í hraðaupphlaups- og skotleik við Grindavík, heldur láta Justin Shouse um að stýra leiknum og keyra kerfin áfram. Setja pressu á boltabakvörð strax og bolti tapast til að hindra snöggar sendingar upp kantinn; Grindvíkingar eru fljótir að refsa. Áherslan í vörninni verður að vera fyrsta og fremst að hafa hemil á Aaron Broussard, sem er Lykla-Pétur þeirra Grindvíkinga. Broussard getur skorað allsstaðar og því erfitt að hafa hemil á kauða og hugsanlegt að það þurfi að tvídekka hann á blokkinni ef einn varnarmaður lendir í vandræðum. Fannar Helgson og Brian Mills verða að passa sig að lenda ekki í villuvandræðum í vörninni. Einnig er mikilvægt að hægja á Zeglinski, sem getur kveikt í netinu ef hann fær pláss. Stjörnumenn vilja svo ekki gleyma Jóhanni, Sigurði eða Þorleifi, því þetta er allt menn sem geta auðveldlega skorað 30 og breytt gangi leiksins á afgerandi hátt og þó það sé kannski ekki að gerast oft þá er bikarleikur sem þessi einmitt tilvalinn til slíks brúks. Teitur þarf sérstaklega að hlúa að andlegu hliðinni, sem er það allra mikilvægasta fyrir leik sem þennan; ef menn koma of spenntir eða of svalir, í lakri tilraun til að fela spennustigið fyrir sjálfum sér, tapar liðið leiknum og þó þessi punktur eiga alveg jafn vel við Sverri Sverrisson og Grindavíkurliðið hefur „stjörnuhrapið“ verið öllu meira í Garðabænum í vetur en í Grindavík. Sóknarleikur Stjörnunnar þarf ekki að vera með neinar sérstakar áherslur aðrar en þær að spila sinn sóknarleik betur en þeir gerðu í síðasta leik og vera ófeimnir við að ráðast upp að körfu Grindvíkinga. Láta þá hafa fyrir því að spila vörn; koma boltanum reglulega inní teig til að láta bæði Broussard og Sigga vinna fyrir kaupinu. Passa að sóknarflæðið sé alltaf gott, ekki láta Grindvíkinga ýta sér langt útá völl til að sækja boltann.
 
Sverrir vill að öllum líkindum halda aftur af Shouse, hann er potturinn, pannan og eldavélin í þessu liði; ef Grindavík nær að halda honum undir 15 stigum og 10 stoðsendingum eru allar líkur á að Grindavík vinni leikinn, svo einfalt er það reiknidæmi. Shouse er vissulega í fínu formi þessa dagana og ef Grindvíkingar vilja halda aftur af honum verða þeir að hamast í honum öllum stundum; gera honum erfitt fyrir að koma boltanum upp og gefa á kantinn, sem og láta þann sem hann er að dekka vera sérlega ágengan í sókn, sem er oftast Zeglinski, sem má passa sig að keyra meira á Shouse í stað þess að sætta sig við þristinn. Síðast þegar liðin mættust var Jarred Frye ekki með en hann og Brian Mills eru báðir stórhættuleg sóknarvopn. Frye á mjög líklega eftir að skora yfir 20 stig en Grindavík vill halda honum og Mills undir þeirri tölu, sem væri varnarsigur fyrir þá. Marvin og Jovan eru svo spurningarmerkin hjá Stjörnunni; Jovan getur komið af bekknum og breytt leiknum á nokkrum mínútum. Þetta verða Grindvíkingar að vera mjög meðvitaðir um, sem og þá staðreynd að Marvin getur auðveldlega laumað 30 stigum án þess að menn né guðir verða þess varir, sérstaklega ef áherslan er öll á að stoppa erlendu leikmennina. Grindavík vill leggja ofuráherslu á að raska sóknarflæðinu sem Shouse stjórnar; sóknarstöðugleiki Stjörnunnar er ekki alveg samkvæmt væntingum og á liðið til að missa dampinn, eitthvað sem Grindavík þarf að skapa með grjótharðri vörn. Grindvíkingar þurfa að passa að sóknarvélin sé smurð með áhuga og orku leikmanna; sóknarvopnin eru mörg og liðið ekki verið í teljandi vandræðum að skora hingað til. Leikmenn þurfa að vera tilbúnir að fá á sig mjög stífa og ágengna vörn Stjörnunnar og bregðast við því af ákveðni og vilja til að keyra á vörnina.
 
Ég geri þá kröfu að bæði lið komi alvarlega tilbúin til leiks; ef annað liðið leggst í pækilinn í þeirri von að bragðast betur seinna á tímabilinu eru það ekki bara vonbrigði fyrir þann klúbb heldur fyrir alla sem hafa gaman að íþróttinni. Það gerist ekki alltaf að tvö topplið mætast í höllinni en þegar slíkt gerist vill áhorfandi og unnandi íþróttarinnar sjá epískt sjónarspil sem hann getur í það minnsta rætt um fram að úrslitakeppni og kannski nokkrum sinnum minnst á í sumar við erlenda ferðamenn á Austurvelli. Þjálfarar liðanna þurfa að sjá til þess að liðin komi vel skrúfuð til leiks svo úr verði dramatískur viðburður og verðugir sigurvegarar í kjölfar hans.
 
Fylgstu með Karfan.is á Twitter:

@Karfan_is

Fréttir
- Auglýsing -