Kristinn Albertsson mun gefa kost á sér sem formaður KKÍ á þingi sambandsins nú í mars. Guðbjörg Norðfjörð hefur verið formaður sambandsins síðustu ár, en ljóst var nú í upphafi árs að hún myndi ekki gefa kost á sér áfram.
Kristinn er afar reynslumikill innan hreyfingarinnar. Var leikmaður fyrst, svo dómari um árabil, sat í stjórnum sambandsins og þá var hann framkvæmdastjóri þess í tvö ár.
Síðustu tvo tæpa áratugi hefur hann starfað sem fjármálastjóri á meginlandinu, en er nú kominn aftur til Íslands og mun af þeim sökum vilja láta til sín taka innan hreyfingarinnar.