spot_img
HomeFréttirKraftröðun Karfan.is - Glimrandi galdramenn á siglingu

Kraftröðun Karfan.is – Glimrandi galdramenn á siglingu

 

Stjörnuleikshléið er á næsta leiti og er því ekki úr vegi að skoða aðeins hvernig liðin standa á þessum tímapunkti. Mörgum finnst eins og alvaran í NBA byrji eftir Stjörnuleikinn og það verður áhugavert að sjá hvernig deildin mun þróast eftir að leikmannagluggnaum lokar (23. febrúar). Ég minni á að Kraftröðunin fer ekki einungis eftir stöðunni í deildinni heldur ýmsum öðrum þáttum, bæði tölfræðilegum þáttum og svo aðallega geðþótta undirritaðs.
 

 

1. Golden State Warriors (1. í sókn 114,3 og 3. í vörn 101,9)
Jæja, Golden State Warriors eru enn besta liðið í NBA(og heiminum). Kevin Durant og Steph Curry eru að finna sig betur saman og það er ekkert sérstaklega jákvætt fyrir restina af deildinni. Breiddin hjá liðinu er minni en í fyrra en það virðist ekki koma mikið að sök þar sem byrjunarliðið er enn sterkara og er algerlega óstöðvandi á köflum. Ljót töp undanfarið gegn Sacramento og Denver(24 þristar!) eru engin ástæða til örvæntingar, þeir eru 8-2 í síðustu 10 leikjum, og það sem meira er: Golden State er með bestu skotnýtinguna, bestu sóknina, þriðju bestu vörnina, flestar stoðsendingar og besta sigurhlutfallið. Galið.

 

2. San Antonio Spurs (5. í sókn 110,1 og 1. í vörn 101,3)
Spurs vélin mallar og mallar. Kawhi Leonard hefur verið frábær og ,,minni” spámenn halda áfram að standa sig og það virðist stundum vera eins og þeir hafi skipt með sér leikjum til þess að stíga upp, einn 20 frákasta leikur hjá Deadmon hér og 20 stig frá Patty Mills þar. Liðið er nýbúið að tryggja sér það, að 20. tímabilið í röð fá aðdáendur San Antonio Spurs að horfa á liðið sitt vinna fleiri leiki en það tapar. Spurs eru 6-4 í síðustu 10 leikjum og það er aðeins undir væntingum, en ekki nóg til þess að færa þá niður um sæti.  

 

3. Washington Wizards (9. í sókn 108,0 og 9. í vörn 105,0)
Eftir brösulega byrjun, vesen í fjölmiðlum og meiðsli lykilmanna er svo komið að liðið er á fljúgandi siglingu og stefnir á 2. sæti austurdeildarinnar. John Wall er að spila eins og besti leikstjórnandinn austan megin, Bradley Beal er að spila vel og restin af liðinu hefur rifið sig upp úr sleninu sem einkenndi liðið í haust þegar þeir töpuðu 9 af fyrstu 11 leikjunum. Frábærir sigrar undanfarið (og sárt tap fyrir Cavaliers) koma liðinu alla leið upp í 3ðja sæti. Síðan 1. janúar eru þeir 17-5.

 

4. Houston Rockets (2. í sókn 111,5 og 9. í vörn 105,2)
Rockets hafa komið mér þægilega á óvart í vetur og eru með mun breiðari hóp en ég hélt þegar að tímabilið hófst. Menn eins og Sam Dekker og Montrezl Harrell hafa heldur betur stigið upp í óhjákvæmilegri fjarveru lykilmanna sem að sum lið virðast bara glíma við á hverju ári. 6-4 í síðustu 10 leikjum er ekkert gríðarlega sannfærandi en eru samt með frekar örugga forystu á liðin fyrir neðan sig. James Harden heldur áfram tölfræðibullinu sínu, 29-8-11 og 27,4 PER. Ef meiðsli Ryan Anderson eru ekki alvarleg og Eric Gordon helst heill er þetta lið stórhættulegt.

 

5. Cleveland Cavaliers (4. í sókn 110,8 og 20. í vörn 106,3)
Meistarar Cleveland Cavaliers eru ekkert að kafna úr góðum fréttum þessa dagana. Stjörnuframherjinn þeirra Kevin Love er meiddur næstu 6 vikurnar hið minnsta og JR Smith er enn frá. Hins vegar má alveg segja eins og er að ef lið eru með Lebron James inni á vellinum þá er möguleiki á sigri. Það er ljóst að menn sem hafa ekki verið að spila mikið þurfa að stíga upp og það strax. (ég er að tala við þig James Jones) Cavs eru 8-2 í síðustu 10 og eru ekkert að örvænta neitt sérstaklega.

 

6. Boston Celtics (6. í sókn 109,6 og 17. í vörn 106,2)
Boston halda áfram að bæta sig og munu eins og áður hefur verið sagt koma fljúgandi inn í úrslitakeppnina. Isaiah Thomas heldur áfram að bjóða líffræðinni í kaffi og er að setja næstum 30 stig í leik. Það er það mesta sem Boston leikmaður hefur gert síðan að Larry nokkur Bird var að reima á sig skóna í Garðinum, í rauninni vantar ekki mikið upp á til þess að Thomas nái að skora mest allra Celtics leikmanna á einu tímabili í sögunni. Boston eru 9-1 í síðustu 10 leikjum svo það er ekki mikil ástæða til breytinga. En ef þeir hafa áhuga þá er ég nokkuð viss um að lið muni standa í biðröð eftir þessum Nets valréttum sem þeir eiga.

 

7. Los Angeles Clippers (7. í sókn 109,3 og 13. í vörn 105,4)
Án Chris Paul eru Clippers 6-12 í vetur. Þess vegan bjuggust flestir (þ.m.t. undirritaður) við frekar dramatísku falli úr 4. sæti vestursins. Öll tölfræði liðsins hefur versnað, en vangeta annarra liða vesturdeildarinnar hefur gert það að verkum að Clippers eru enn í fínum séns á 4. sætinu, jafnvel 3. ef Paul kemur fljótlega aftur. 5-5 í síðustu 10 leikjum er ekkert sérstakt, en liðin í kring hafa ekki verið að gera mikið betur. Blake Griffin er að spila virkilega vel og er að miklu leiti að taka að sér leikstjórnandastöðuna með finum árangri.
 

 

8. Utah Jazz (12. í sókn 107,1 og 2. í vörn 101,8)
Frábært varnarlið Utah á oft í talsverðum vandræðum með að skora nógu vel til þess að vinna leiki a stöðugum hraða. 34 stig í fyrri hálfleik gegn Clippers í síðasta leik og vont tap settu liðið í 5. sæti vestursins. Utah eru 5-5 í síðustu leikjum og þurfa að taka sig á til þess að tryggja sér 4. Sætið og heimavallarrétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Þeirra bestu leikmenn Gordon Hayward og Rudy Gobert ættu að hugsa sinn gang og átta sig á því að þetta lið getur gert mikinn usla í vor ef hugarfarið er rétt.

 

9. Memphis Grizzlies (18. Í sókn 104,5 og 4. í vörn 102,8)
Lykilmenn eldast, meiðslum fjölgar, þjálfarar fara en alltaf stendur lið Memphis Grizzlies fyrir sínu. Þeir spila sinn körfubolta (Grit and Grind) og gera það frábærlega. Lykilmenn eru að spila vel og aukaleikararnir þekkja sín hlutverk eins vel og mögulegt er. Það langar engum að mæta hungruðum grábjörnum í úrslitakeppninni en þeir stefna hraðbyri á 4. Sæti vesturdeildarinnar og eru 7-3 í síðustu 10 leikjum. Svo ætti Mike Conley að vera á leiðinni til New Orleans til þess að taka þátt í Stjörnuleiknum en það er önnur saga.

 

10. Oklahoma City Thunder (21. í sókn 103,9 og 9. í vörn 105,0)
Oklahoma Westbrooks hafa verið að spila ágætlega undanfarið en misst hausinn á köflum sem hefur skilað þeim erfiðum töpum. Þeir eru 4-6 í síðustu 10 leikjum og virðast vera að festa sig í 7. sætinu. Maður okkar allra hann Russel Westbrook heldur áfram að skila fáránlegum tölum og er enn með þrefalda tvennu að meðaltali í leik yfir tímabilið, það er frábært. Þeir þurfa samt meira frá mönnum sem fá mikið borgað. Ég auglýsi hér með eftir meira framlagi frá Steven Adams og Victor Oladipo.

 

11. Indiana Pacers (14. í sókn 105,4 og 16. í vörn 105,9)
Eru ekki alveg að standa undir væntingum, Paul George virðist samt aðeins vera að vakna. Gott fyrir Indiana.

 

12. Toronto Raptors (3. í sókn 111,3 og 17. í vörn 106,2)
Serge Ibaka er mættur til Kanada í staðinn fyrir Terrence Ross. Það ætti að gefa Lowry og DeRozan pláss til þess að vinna með.

 

13. Miami Heat (26. í sókn 103,0 og 6 í vörn 104,1)
Dion Waiters, já Dion Waiters. Miami Heat eru að spila glimrandi bolta og virðast ekkert vera að hætta. Var ég búinn að segja Dion Waiters?

 

14. Atlanta Hawks (25. í sókn 103,3 og 5. í vörn 103.3)
4. sæti Austursins þrátt fyrir jafnt stigahlutfall. Magnað.

 

15. Denver Nuggets (8. í sókn 109,0 og 30. í vörn 110,8)
Horfðu á Nikola Jokic spila og það strax. Strákurinn er að spila glimrandi bolta og það er unun að horfa á sumar sendingarnar sem manninum dettur í hug að gefa.  

 

16. Chicago Bulls (20. í sókn 104,2 og 13. í vörn 105,5)
Chicago Bulls eru í vandræðum, ég verð ekki hissa ef að Fred Hoiberg verður rekinn.

 

17. Detroit Pistons (23. í sókn 103,7 og 11. í vörn 105,2)
John Leuer er mættur í byrjunarliðið í stað Tobias Harris sem hefur verið að koma vel inn af bekknum. Eru að berjast fyrir lífi sínu í 8. sæti austursins.

 

18. Dallas Mavericks (19. í sókn 104,4 og 17. í vörn 106,2)
Harrison Barnes hefur bætt stigaskorið sitt frá síðasta ári mest allra leikmanna deildarinnar. Ef ekki væri fyrir þessa herfilegu byrjun væru Mavs í úrslitakeppnissæti.

 

19. Sacramento Kings (15. í sókn 105,2 og 23. í vörn 108,5)
Sirkusinn í Sactown heldur áfram. Cousins byrjaður að fá bönn fyrir tæknivillusöfnun og liðið vinnur umsvifalaust sinn næst besta sigur á timabilinu (Boston)

 

20. Portland Trail Blazers (13. í sókn 106,8 og 26. í vörn 108,9)
Skiptu Mason Plumlee út fyrir Yusuf Nurkic. Ætti að bæta smá kjöti í vörnina hjá liði sem þarfnast þess sárlega.

 

21. Minnesota Timberwolves (10. í sókn 107,4 og 23. í vörn 108,5)
Andrew Wiggins virðist vera að finna fjölina sína, 20 stig eða meira í síðustu 14 leikjum.

 

22. Charlotte Hornets (15. í sókn 105,2 og 7. í vörn 104,9)
Leikur liðsins hefur algerlega hrunið eftir frábæran fyrsta mánuð. Nic Batum virðist vera að komast aftur á flug, liðið þarfnast hans sárlega.

 

23. Philadelphia 76ers (30. í sókn 99,7 og 15. í vörn 105,7)
Enginn Embiid, ekkert vandamál. TJ McConnell sér bara um þetta og hendir í flautukörfur.

 

24. Milwaukee Bucks (11. í sókn 107,3 og 21. í vörn 106,8)
Eftir ágætis byrjun hefur hallað undan fæti, Jabari Parker meiddur og lítið að frétta. Gríska undrið heldur samt áfram að heilla.

 

25. New Orleans Pelicans (27. í sókn 102,3 og 9. í vörn 105,1)
Pelíkanarnir virðast ekki jafn fastir á sjúkralistanum og áður, gengur samt ekkert. Þarf Anthony Davis ekkert að fara að vinna leiki?

 

26. New York Knicks (16. í sókn 105,2 og 24. í vörn 108,6)
Charles Oakley atvikið virðist eiginlega bara lýsandi fyrir tímabilið hjá Knicks. Fastir liðir eins og venjulega. Fer Melo?

 

27. Los Angeles Lakers (23. í sókn 103,8 og 29. í vörn 110,1)
Getur einhver tekið saman öll ,,meiðslin” sem láta Lakers men sitja á bekknum?

 

28. Orlando Magic (29. í sókn 100,6 og 22. í vörn 107,3)
Skiptu frá sér Serge Ibaka fyrir Terrence Ross, eftir að hafa skipt Oladipo fyrir Serge Ibaka. Hvað getur maður sagt?

 

29. Phoenix Suns (24. í sókn 103,6 og 28. í vörn 109,4)
Devin Booker heldur áfram að skjóta, Devin Booker heldur áfram að klikka.

 

30. Brooklyn Nets (28. í sókn 100,8 og 26. í vörn 108,9)
Það eru 2 NBA leikmenn í Brooklyn Nets. Annar er Brook Lopez, þið megið ráða hver hinn er.

Fréttir
- Auglýsing -