KR urðu VÍS bikarmeistarar í 12. flokki kvenna eftir úrslitaleik gegn Njarðvík í Smáranum í dag.
Á leið sinni í úrslitaleikinn lagði Njarðvík lið Stjörnunnar með 6 stigum á meðan KR vann í undanúrslitum sameinað lið Breiðabliks og Grindavíkur með 23 stigum.
Í 12. flokki kvenna eru KR og Njarðvík efst í deildinni. KR í efsta sætinu með 10 sigra og 2 töp, en Njarðvík í 2. sætinu með 9 sigra og 2 töp. Innbyrðis hafa liðin mæst í tvígang í vetur. KR vann fyrri leikinn með 29 stigum í september, en Njarðvík þann seinni með 4 stigum á Meistaravöllum í byrjun febrúar.
Leikurinn fór af stað eins og góður boxbardagi þar sem liðin tvö létu á reyna hvort sínar áherslur. Liðin skiptast á snöggum áhlaupum, en þegar fyrsti fjórðungurinn er á enda munar aðeins stigi á liðunum, Njarðvík í vil, 18-19, en 13 þeirra 19 stiga hafði nýkrýndur bikarmeistari með meistaraflokki Njarðvíkur Hulda Agnarsdóttir sett. Njarðvík er svo skrefinu á undan í öðrum leikhlutanum, en KR nær að setja aðeins eitt skot niður af vellinum á fyrstu fimm mínútum hans. KR er þó ekki langt undan þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 33-37.
Stigahæst fyrir Njarðvík í fyrri hálfleiknum var Hulda Agnarsdóttir með 15 stig, en í öllu jafnara liði KR var Kristrún Kjartansdóttir með 8 stig.
Á fyrstu mínútu seinni hálfleiksins nær KR að jafna leikinn, 37-37. KR gengur enn frekar á lagið, ná að byrja þriðja leikhlutann á 15-2 áhlaupi og fara mest 14 stigum á undan í fjórðungnum. Njarðvík svarar þessu áhlaupi ágætlega, en KR er þó skrefinu á undan fyrir lokaleikhlutann, 55-52.
Leikurinn er svo í járnum í þeim fjórða, en þegar 5 mínútur eru eftir er KR stigi á undan, 61-60. Á lokamínútunum fær KR svo nokkur stór skot til að detta fyrir sig á meðan þær nánast læsa varnarlega. Vinna að lokum með 10 stigum, 73-63.
Leikur dagsins var afskaplega kaflaskiptur. Njarðvík virtist vera með tökin í fyrri hálfleiknum, en það var þó eins og KR væru að gera alla hlutina rétt sóknarlega, boltinn vildi einfaldlega ekki niður. Þegar hann svo fór að detta hjá þeim í þeim seinni varð þetta að hörkuleik. KR liðið virkilega flott í dag, með gífurlega hæfileikaríkt og fjölhæft byrjunarlið, en þá voru þær sem komu af bekknum einnig góðar og smullu þær eins og flís við rass við það sem var að gerast á vellinum hverju sinni.
Atkvæðamest fyrir Njarðvík í leiknum var Hulda Agnarsdóttir með 24 stig, 11 fráköst og 5 stoðsendingar. Henni næstar voru Kristín Björk Guðjónsdóttir með 8 stig, 7 fráköst, 3 stoðsendingar og Sara Logadóttir með 10 stig og 5 stoðsendingar.
Atkvæðamestar fyrir KR í dag voru Kristrún Kjartansdóttir með 18 stig, 10 fráköst og 3 stoðsendingar og Rebekka Steingrímsdóttir með 22 stig, 9 fráköst og 4 stolna bolta.













Myndir / Jón Gautur Hannesson
Myndasafn (væntanlegt)