KR tryggði sér sæti í úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitil Drengjaflokks þegar þeir sigruðu Fjölni í fyrri undanúrslitaleik kvöldsins sem fram fór í Dalhúsum. Vesturbæingar náðu yfirhöndinni strax á upphafsmínútu leiksins og þrátt fyrir að þeir hafi haldið forystu allan leikinn, þá gafst Fjölnisliðið aldrei upp og átti góða spretti. Fjölnir náði að minnka forskot KR niður í 7 stig þegar skammt var eftir af þriðja leikhluta en KR var sterkari aðilinn á lokasprettinum og sigraði leikinn örugglega, 95-72.
Atkvæðamestur í liði KR var Sigvaldi Eggertsson með 27 stig, 12 fráköst, 5 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Orri Hilmarsson skoraði 24 stig og stal 5 boltum fyrir KR og Andrés Ísak Hlynsson bætti við 18 stigum auk þess að taka 7 fráköst.
Hjá Fjölni var Davíð Alexander Magnússon stigahæstur með 23 stig, 6 fráköst, 4 stoðsendingar og 4 stolna bolta, Arnar Geir Líndal skoraði 12 stig og Daníel Bjarki Stefánsson skoraði 10 stig og tók 6 fráköst.