KR hefur samið við tvo erlenda leikmenn um að leika með meistaraflokki karla á komandi leiktíð, þá Ante Gospic frá Króatíu og Bandaríkjamanninn Ty Sabin.
Ante er 203 cm á hæð og spilar stöðu kraftframherja. Hann var samherji Matthíasar Orra Sigurðssonar hjá Flagler háskólanum tímabilið 2012-13. Á atvinnumannaferli sínum hefur hann meðal annars spilað með Cibona í heimalandi sínu, bæði í efstu deild sem og í ABA-deildinni. Ante hefur einnig spilað á Spáni, í Danmörku, Þýskalandi og Rúmeníu. Á síðasta tímabili spilaði hann með KK Gorica í efstu deild Króatíu, þar sem hann skoraði 8,1 stig og tók 2,8 fráköst í leik. Ante er kominn til landsins og byrjaður að æfa með liðinu.
Ty er 25 ára gamall Bandaríkjamaður, 188 cm á hæð og spilar stöðu bakvarðar. Hann útskrifaðist úr Ripon College í Wisconsin vorið 2017. Á fjórum tímabilum í skólanum skoraði hann 26,1 stig að meðaltali í leik, en skólinn spilaði í 3. deild NCAA háskólaboltans. Að námi loknu hefur Ty m.a. spilaði með Hörsholm í Danmörku, Leyma Basquet Coruna á Spáni og á síðasta tímabili með Wetterbygden Stars í Svíþjóð, þar sem hann skoraði 22,2 stig í leik og var stigahæsti leikmaður sænsku deildarinnar. Ty er væntanlegur til landsins á næstu dögum.
KR.is: Ante Gospic og Ty Sabin til liðs við KR