KR stúlkur fóru til Keflavíkur með það í fararbroddi að hefna síns fyrsta og eina ósigurs í deildinni gegn Keflavík. Þetta áætlunaverk KR tókst og unnu þær 13 stiga sigur 74:87 í nokkuð skemmtilegum leik þar sem liðin bæði voru að leika vel.
Leikurinn var hnífjafn framan af og bæði lið að sýna snilldartakta. Það var ekki fyrr en líða tók á annan fjórðung að Jenny Finora leikmaður KR tók sig til og setti upp skotsýningu sem endaði með því að KR stúlkur fóru til leikhlés með 10 stiga forystu 40:50.
Í seinni hálfleik náðu Keflavík að byrja nokkuð vel og söxuðu jafnt og þétt á forskot gestanna. Þær náðu svo loksins að jafna leikinn í stöðunni 54:54. En þá virtust KR stúlkur loksins vakna til lífsins og var það Unnur Tara sem leiddi þær áfram til loka fjórðungsins með 6 stigum og 8 stig skildu liðin fyrir síðasta fjórðunginn.
Þessi munur hélst nánast út allan fjórðunginn. Keflavík náðu aldrei að saxa frekar á forskotið og á móti voru gestirnir ekkert að bæta í þannig að í raun skiptust liðin á ýmist að skora eða stoppa hvort annað. 13 stiga sigur leit svo dagsins ljós fyrir gestina og svo sem vel að því komnar þrátt fyrir að Keflavík hafi verið að spila fínan bolta.
"Við þurfum einfaldlega að halda áfram í því sem við erum búnar að vera að gera og ekki segja bara hausinn niður í bringu. Við skorum 6 stigum meira í kvöld en þegar við sigrum þær á þeirra heimavelli sem er fínt en þær eru að skora allt of mikið á okkur. Vörnin var skelfileg en mér fannst við ekkert vera að spila neitt svakalega illa. Það vantaði bara aðeins uppá þetta hjá okkur. Eftir fyrstu fjóra leikina í vetur hjá okkur og svo hinsvegar hjá KR þá hefðu líklega ekkert margir verið ósáttir með svona tap gegn KR. Ég veit ekki hvort það sé komið strax bakvið eyrað á þeim stórleikurinn eftir eina viku og þá kannski erfitt að gíra sig upp í þennan leik í dag. En þetta er engin heimsendir þó við töpum þessum leik. Við erum að slást um annað sætið í deildinn og ætlum okkur að ná því markmiði" sagði Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari Keflvíkinga eftir leik.
"Ég er gríðarlega ánægður með þennan sigur. Fyrri hálfleikur hér í kvöld er líklega einn besti hálfleikur sem ég hef séð spilaðan í vetur hjá báðum liðum. Það skein í gegn að hér væru greinilega tvö topp lið að spila. Seinni hálfleikur kannski ekki alveg eins góður en þessi leikur fer heilt yfir litið í topp 1 til 2 yfir þennan vetur því skorið er hátt en samt voru bæði lið að spila hörku vörn. Við lögðum þetta svolítið öðrúvísi upp heldur en síðast gegn þeim. Við lögðum meiri áherslu á að stoppa þær fyrir utan heldur en að verja teiginn. Við fórnuðum aðeins hjálpinni í það að þær væru ekki að fá opin skot fyrir utan. Keflavík er með dúndurlið og voru að spila vel í dag. Við bara spiluðum aðeins betur að þessu sinni." sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari KR