Reykjavíkurliðin Valur og KR áttust við í bráðskemmtilegum og hörkuspennandi leik í Domino‘s deild karla sem fram fór í Valshöllinni í kvöld.
Gangur leiks
Nýliðarnir í Val mættu ákveðnir til leiks gegn ríkjandi meisturum KR og komust í 9-4 rétt fyrir miðjan fyrsta fjórðung. Þá hrökk KR vélin í gang eftir að hafa nýtt skot sín afar illa á fyrstu mínútunum og leiddu Vesturbæingar eftir fyrsta leikhluta með 8 stigum, 12-20. Með mikilli baráttu náðu Valsmenn að minna muninn í öðrum leikhluta og var forysta KR komin niður í 3 stig í hálfleik.
KR gekk illa að hrista Valsmenn af sér, þeir náðu mest 9 stiga forystu en Valur gaf ekkert eftir og kom alltaf til baka. Þegar tæp mínúta var eftir af leiknum setti Birgir Björn Pétursson niður 2 stig fyrir Val og minnkaði með því muninn niður í 3 stig. Valsmenn eygðu því von um að stela sigrinum af KR en tvö stig af vítalínunni frá Pavel Ermolinskij og tvö stig frá Birni Kristjánssyni á lokamínútunni gerðu út um leikinn sem KR sigraði með 7 stigum, 73-80.
Tölfræði leiks
Þrátt fyrir að hafa tapað í kvöld, þá sigraði Valur frákastabaráttuna með 10 fráköstum og munar þar um 15 sóknarfráköst heimamanna á móti 8 sóknarfráköstum KR. Valur var einnig með betri nýtingu í tveggja stiga skotum en skotnýting KR fyrir utan þriggja stiga línuna var hins vegar mun betri. KR setti 9 af 19 þriggja stiga skotum sínum niður í kvöld á meðan einungi 5 af 29 þriggja stiga skotum Vals rötuðu rétta leið.
Hetjan
Atkvæðamestur í liði KR í kvöld var Kristófer Acox en hann lauk leik með 23 stig og 12 fráköst. Næstur honum í framlagi var Jalen Jenkins sem setti 17 stig og tók 10 fráköst.
Kjarninn
Deildin er gríðarlega jöfn og eftir leiki kvöldsins sitja KR, Keflavík og ÍR á toppi hennar með þrjá sigurleiki og einn tapleik hvert, en Tindastóll, Stjarnan og Grindavík hafa öll sigrað tvo leiki og eiga leik til góða. Valsmenn sitja hins vegar í 10. sæti deildarinnar með einn sigur eftir fjóra leiki.
Myndasafn úr leik (Torfi Magnússon)