KR stúlkur eru komnar í úrslit Íslandsmótsins í körfuknattleik eftir að hafa sópað út Íslands og bikarmeistara Hauka.Gestirnir úr Hafnarfirði leiddu lengst af leiksins en eftir æsispennandi lokamínútur höfðu KR-ingar betur, 63-61. Stigahæst hjá KR var Margrét Kara Sturludóttir með 15 stig, hjá Haukum skoraði hin danska Kiki Lund 15.
Tap í kvöld þýddi augljóslega sumarfrí fyrir Haukastelpur og þær ætluðu að selja sig dýrt í DHL-höllinni. Það var reyndar Guðrún Gróa sem opnaði leikinn með þriggjastigakörfu. Haukar voru þó ákveðnari og sóttu stíft á körfuna. Í stöðunni 5-9 fékk Gróa sína þriðju villu sem voru slæm tíðindi fyrir KR-inga enda Gróa gríðarlega mikilvæg KR-liðinu. Sóknarleikur beggja liða var frekar stamur í fyrsta leikhluta og lengst af leiknum, skotnýtingin var slæm en Haukastúlkur voru með yfirhöndina og leiddu 11-8 eftir fyrsta leikhluta.
Skotnýtingin skánaði aðeins í öðrum leikhluta og Haukar héldu áfram að sækja á KR-inga. Eftir að Jenny Pfeiffer-Finora hafði sökkt þriggjastiga körfu til að minnka muninn í 17-18 kom góður kafli frá Haukastelpum sem juku forskot sitt í 9 stig, 21-30, þegar ein og hálf mínúta voru til hálfleiks. Lítið gekk hjá KR-ingum á þessum tíma enda svæðisvörn Hauka fyrnasterk. Kiki Lund átti lokaorð hálfleiksins en staðan var 26-34 að honum loknum.
Þær Kiki Lund og Heather Ezell voru atkvæðamiklar fyrir gestina í fyrri hálfleik og skoruðu 9 stig hvor í honum, þá var Ragna Margrét með 6 stig. Hjá heimamönnum var Signý Hermannsdóttir komin með 6 stig.
Frumkvæðið var enn rauðklæddra í þriðja leikhluta, þrátt fyrir að KR-ingar næðu að komast aftur inn í leikinn og komast yfir 41-40 með þriggjastiga körfu Jenny. Haukarnir sýndu að þeir voru ekki dottnir af baki og góður endasprettur í leikhlutanum gaf þeim 6 stiga forskot, 44-51 fyrir lokaleikhlutann. KR-ingar skoruðu 5 fyrstu stigin í fjórðaleikhluta og munurinn orðinn tvö stig. Guðrún Ósk Ámundadóttir svaraði með öðrum þrist sínum í leiknum og hélt KR stúlkum í hæfilegri fjarlægð. Þá steig Jenny upp eftir góða körfu frá Margréti Köru og kom KR-ingum yfir með þriggjastigakörfu 55-54. Haukar svöruðu með tveimur körfum í röð, fyrst stökkskoti frá Rögnu inn í teig og síðan stórum þrist frá Helenu Brynju Hólm frá kantinum og munurinn fjögur stig, 55-59 þegar fjórar mínútur voru eftir. Unnur Tara svaraði með tveimur góðum körfum og jafnaði fyrir KR-inga þegar tæpar tvær mínútur voru eftir, 59-59.
Spennan var magnþrungin á lokamínútunum. Signý stal boltanum og gaf á Hildi sem keyrði fram og lagði boltann ofaní körfuna auk þess að fá villu á Heather Ezell. Vítið fór hins vegar forgörðum og Haukar brunuðu fram. Kiki Lund fékk stökkskot inn í teig en Signý Hermannsdóttir varði það glæsilega og Haukar brutu á Jenny. Húnn ýtti aðeins eitt af tveimur vítaskotum sínum og staðan 62-59. Aftur leituðu Haukar til Kiki enda Heather Ezell með lítið svigrúm þar sem varnarmenn KR límdu sig við hana. Kiki brást ekki bogalistinn og minnkaði muninn í eitt stig, 62-61. KR-ingum voru mislagðar hendur í næstu sókn sinni og því fengu Haukar tækifæri til að komast yfir þegar 28 sekúndur voru eftir. Boltinn rataði í hendur Rögnu Margrétar en aftur kom Signý aðsvífandi og varði skot hennar glæsilega. Enn á ný var brotið á Jenny sem fór á vítalínuna þegar 12 sekúndur voru eftir. Hún nýtti seinna vítið og kom KR í 63-61. Kiki tók skot þriðju sóknina í röð en skotið geigaði og KR-ingar fögnuðu sætum sigri.
Hjá KR voru þær Margrét Kara og Jenny góðar í varnarhlutverkinu þar sem Guðrún Gróa gat minna beitt sér en venjulega. KR spilaði ýmist maður á mann, box og einn eða tígull og tvær svæðis afbrigði auk þess að beita pressuvörn við og við. Margrét og Jenny sýndu einnig frumkvæði í sókninni sérstaklega þegar á leið. Signý var sem fyrr sem klettur í vörninni og tók 13 fráköst auk þess að skora 13 stig. Unnur Tara og Hildur stóðu einnig fyrir sínu.
Kiki Jean Lund var best Hauka með 15 stig og 7 stolna bolta en nýtingin var svo sem ekki til að hrópa húrra fyrir. Heather skoraði 13 stig, 9 í fyrri hálfleik og gaf 7 stoðsendingar auk þess að taka 8 fráköst. Telma Björk Fjalarsdóttir var öflug í fráköstunum, tók 12 slík. Guðrún Ósk barðist af krafti og var ekki á þeim buxunum að gefast upp.
KR-ingar eru vel að sigrinum komnir, þrír sigurleikir í röð gegn góðu liði Hauka eru gott veganesti inn í úrslitin þar sem þær mæta annað hvort liði Keflavíkur eða Hamars.
Umfjöllun: Atli Freyr