KR lagði Val rétt í þessu í undanúrslitum Geysisbikar kvenna, 99-104. KR mun því leika til úrslita um bikarinn komandi laugardag gegn sigurvegara viðureignar Hauka og Skallagríms, sem hefst innan tíðar.
Eitthvað áttu liðin erfitt með að skora fyrstu stig leiksins, sem komu ekki fyrr en eftir tæplega tveggja mínútna leik. Eftir það var mikið jafnræði á með liðunum þessar fyrstu mínútur, allt í járnum eftir fyrsta, 21-21. Undir lok fyrri hálfleiksins nær KR svo að vera skrefinu á undan. Mikið til vegna stórkostlegrar skotnýtingar, þar sem að liðið var með 53% þriggja stiga nýtingu í fyrri hálfleiknum. Eru 6 stigum yfir í hálfleik, 44-50, þar sem að bæði Danielle og Hildur voru komnar með 20 stig fyrir KR.
Í upphafi seinni hálfleiksins nær KR áfram að halda í forystu sína. Nokkuð farið að bera á villuvandræðum hjá Val á þessum tímapunkti, bæði Helena og Kiana komnar með þrjár villur um miðjan þriðja leikhlutann. Kr heldur í 8 stiga forystu fyrir lokaleikhlutann, 62-70.
Í fjórða leikhlutanum gerir Valur svo vel í að vinna niður þessa forystu og eru komnar einu stigi frá KR þegar um 2 mínútur eru eftir af leiknum, 81-82. Leikurinn er svo stál í stál þangað til í lokin, þegar í stöðunni 84-86, með rúmar 20 sekúndur eftir, Valur fær boltann. Kiana nær að koma sér á vítalínuna, setur bæði niður. KR fer í glataða lokasókn og leikurinn því í framlengingu.
Í framlengingunni skiptust liðin á körfum. Leikurinn í járnum. Að lokum var það eitt gott stopp hjá KR og þristur í kjölfarið frá Sanja Orazovic þegar um 10 sekúndur voru eftir sem skildi liðin að. Fimm stiga sigur staðreynd, 99-104.
Atkæðamest KR í leiknum var Hildur Björg Kjartansdóttir með 37 stig og 8 fráköst. Fyrir Val var það Helena Sverrisdóttir sem dróg vagninn með 24 stigum og 9 fráköstum.
Myndir / Bára Dröfn