9:18
{mosimage}
Meistaraflokkur kvenna hjá KR skilaði dýrmætum stigum í hús í kvöld þegar Grindavík kom í heimsókn. Jafnt var á öllum tölum þar til í fjórða leikhluta þar sem KR vann leikhlutann 24-12.
Liðin voru fyrir leikin hnífjöfn í deildinni, hvort um sig með þrjá sigra og tvo tapleiki svo að um hörkuleik var að ræða. Ágætis mæting var á pallana og áhorfendur studdu vel við sín lið. Það skilaði sér svo sannarlega til leikmanna því leikurinn var hin mesta skemmtun allt frá fyrstu mínútu.
Fyrsti leikhluti var hraður, greinilega hátt spennustig í leikmönnum þar sem mikið var um mistök á báða bóga. Varnir liðanna hafa ef til vill oft verið betri og var staðan eftir leikhlutann var 23-24 fyrir Grindavík.
Í öðrum leikhluta var áfram jafnt á öllum tölum og skiptust liðin á að leiða. Vörn KR stelpna var mun þéttari og hreyfanlegri frá því í byrjun leiksins en Grindvíkingar stríddu okkar stelpum líka í sinni vörn þar sem þær stálu allt of mörgum boltum í leikhlutanum og lásu vel í sendingarnar sem gefnar voru upp völlinn. Þegar gengið var til hálfleiks var staðan 41-43 Grindvíkingum í vil.
Seinni hálfleikur hófst með látum, mikilli baráttu og góðri vörn að beggja hálfu, leikmenn unnu vinnuna sína vel allstaðar á vellinum en mörg skot voru tekin úr erfiðum færum. Eljan í okkar mönnum inn í teig sem fóru mikinn í fráköstum skilaði liðinu þó inn í síðasta leikhlutann í stöðunni 59-63.
Fjórði leikhluti var eign KR-inga, Monique og Hildur leiddu liðið í 8-0 áhlaupi með frábærum tilþrifum og sóknargullmolinn Mo sendi nokkra bolta upp í stúku með tilheyrandi fagnaðarlátum. Glæsilegur 83-75 sigur KR kvenna og liðið hefur þar með skotið sér upp fyrir Grindavík í töflunni og situr nú í þriðja sæti með 8 stig.
Atkvæðamestar í liði KR voru Monique Martin (32 stig, 13 fráköst, 6 varin og 5 stolnir), Hildur Sigurðardóttir (24 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar) og Sigrún Ámundadóttir (17 stig og 13 fráköst)
Jóhannes Árnason þjálfari sagði í viðtali við heimasíðuna að stelpurnar séu búnar að æfa af krafti að undanförnu og séu í toppformi, úthaldið skilaði sér í svona leikjum og liðið sé komið til að láta taka sig alvarlega.
Mynd: www.kr.is/karfa