spot_img
HomeFréttirKR sigur í sveiflukenndum leik (Umfjöllun)

KR sigur í sveiflukenndum leik (Umfjöllun)

09:42

{mosimage}

 

(Avi Fogel var drjúgur fyrir KR í gærkvöldi) 

 

Stórleikur var í DHL höllinni í gærkvöld þar sem Íslandsmeistarar KR tóku á móti Snæfell. Leikurinn var mjög sveiflukenndur og sýndu margir leikmenn sínar bestu hliðar en aðrir sínar verstu. KR sigraði leikinn nokkuð örugglega, 85-73, þó Snæfell hafi í raun aldrei verið langt á eftir nema á tveimur köflum í leiknum. Fremstur í flokki KR fór bakvörðurinn Avi Fogel sem hefur stimplað sig vel inní KR liðið í seinustu tveimur leikjum, hann skoraði 23 stig og gaf 5 stoðsendingar í leiknum.  Næstir voru Helgi Már Magnússon með 15 stig, 6 stoðsendingar og 6 fráköst á aðeins 25 mínútum og Joshua Helm með 11 stig og 7 fráköst. Sá síðast nefndi afrekaði einnig að tapa 7 boltum í leiknum. Hjá Snæfell var Sigurður Þorvaldsson stigahæstur með 18 stig og næstur var Hlynur Bæringsson með 16 stig og 8 fráköst.

 

Fyrsti leikhluti byrjaði frekar rólega og bæði lið fóru illa með þau skot sem þau fengu.  Snæfell hafði þó yfirhöndina allan leikhlutan og voru þetta þremur til einu stigi yfir.  Jón Ólafur Jónsson hjá Snæfell lenti þó í villuvandræðum strax i fyrsta leikhluta og var kominn með þrár villur þegar rúm mínúta lifði af leikhlutanum. Þetta virtist þó ekki hafa áhrif á leik liðsins þessa seinustu mínútu því Snæfell skoraði seinustu 6 stigin í leikhlutanum og höfðu því forystu eftir fyrsta leikhluta, 16-22.

 

Það vakti athygli að tveir landsliðsmenn fengu að sitja á bekknum há KR allan fyrsta leikhluta, en það voru Helgi Már Magnússon og Brynjar Þór Björnsson. Þegar svo þessi leikmenn komu inná í öðrum leikhluta var annar bragur á sóknarleik KR sem skoraði 33 stig gegn 17 stigum Snæfells í öðrum leikhluta. Snæfell virtust vera í miklu basli í sóknarleik sínum og oftar en ekki féllu leikmenn þess í þá gryfju að taka boltann upp án þess að hafa sendingarmöguleika og þetta stoppaði oftar en ekki allt flæði í sóknarleik þeirra. 

 

Það var síðan um miðjan annan leikhluta sem allt virtist falla með KR, þeir breyta stöðunni úr 21-26 í 42-30 á 6 mínutum og fer þar fremstur í flokki Avi Fogel sem setti 8 stig í röð og gaf svo glæsilega sendingu vel fyrir utan þriggja stiga línuna á Joshua Helm sem tróð viðstöðulausa troðslu með tilþrifum. Strax í næstu sókn stelur Helgi Már boltanum, hleypur upp völlin, skorar  þriggja stiga körfu og allt ætlar um koll að keyra því áhorfendur voru staðnir á fætur og létu vel í sér heyra. Á þessum tímapunkti fékk maður á tilfinninguna að KR ætlaði hreinlega að valta yfir Snæfellinga sem voru komnir 16 stigum undir þegar mínuta var eftir.

 

Aftur tókst þó Snæfellingum að skora 6 seinustu stigin á seinustu mínutu leikhlutans og staðan því 49-39 þegar flautað var til hálfleiks. Stigahæstir í hálfleik voru hjá KR Avi Fogel með 17 stig, Pálmi Sigurgeirsson með 7 stig og aðrir minna en hjá Snæfell var það Slobodan Subacic með 10 stig og Sigurður Þorvaldsson með 9 stig.

 

Snæfellingar mættu mun öflugri til leiks í þriðja leikhluta og það leit út fyrir að KR-ingar héldu að þeir væru með sigurinn í höndunum því þeir voru búnir að tapa það sem var 16 stiga forskot þegar mínuta lifði af öðrum leikhluta niður i tveggja stiga forskot þegar fimm mínútur voru liðnar af þeim þriðja, 51-49. Sigurður Þovarldsson fór mikinn á þessum kafla og skoraði oftar en ekki af miklu harðfylgi undir körfunni eins og honum einum er lagið. KR hafði þó svar við þessu og virtust átta sig á því í hvað stefndi því þeir höfðu svo náð aftur 8 stiga forskoti þegar þrjár og hálf mínúta lifði af leikhlutanum en þá tók Geof Kotila þjálfari Snæfell leikhlé, 57-49. Næstu mínútuna eða svo spilaðist leikurinn jafnt þangað til að KR datt í gírinn. Þegar 9 mínútur voru liðnar af leikhlutanum og KR aðeins búið að skora 8 stig þá tóku þeir sig til og skoruðu önnur 8 stig á síðustu mínútunni gegn engum stigum Snæfells og náði því forystunni aftur upp í 9 stig, 65-56. 

 

Fjórði leikhluti spilaðist nokkuð jafn framan af en klaufalegar villur KR-inga einkenndu þennan kafla en þeir fengu vel yfir 10 villur dæmdar á sig í þessum leikhluta og var Fannar Ólafsson sendur af velli með 5 villur þegar rúmlega 3 mínútur voru eftir af leiknum. Á þeim tímapunkti voru leikmenn KR búnir að fá á sig dæmdar 9 villur og aðeins skorað 13 stig á 7 mínútum. Það var þó aldrei vafi á því hvoru megin sigurinn myndi detta í fjórða leikhluta því hvorugt lið spilaði góðan sóknarleik og tilraunir Snæfells til að minnka muninn gengu lítið. Munurinn á liðunum var þetta 9 til 12 stig allan leikhlutan og vann KR svo á endanum góðan 12 stiga sigur.

 

Það er þó ljóst að KR liðið á að eiga mikið inni því Fannar Ólafsson fann sig engan veginn í þessum leik og gerði lítið annað en að sanka að sér villum. Helgi Már átti virkilega góðan leik og aftur undra menn sig á því hvers vegna hann situr á bekknum allan fyrsta leikhluta sem var eini hlutinn af leiknum sem Snæfell hafði forystu. Hjá Snæfell var það frammistaða Jóns Ó. Jónssonar sem vakti athygli en það var skarð fyrir skyldi að hann var í villuvandræðum allan leikinn en náði þó að spila allan fjórða leikhluta og lék hann virkilega vel. Nú eftir þrjár umferðir situr Snæfell ennþá á botninum án stiga og það er víst að þeir þurfa að herðar róðurinn í næstu leikjum.

 

Tölfræði leiksins

 

Texti: Gísli Ólafsson

Mynd: Stefán Helgi Valsson

Fréttir
- Auglýsing -