spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaKR-sigur í Mustadhöllinni í hörkuleik!

KR-sigur í Mustadhöllinni í hörkuleik!

Eftir langa pásu sökum bikarhelgar og landsleikja, fór Dominos deild karla loks af stað í dag.  Grindvíkingar tóku á móti KR-ingum en pása þeirra röndóttu var ekki alveg eins löng þar sem þeir tóku þátt í bikarhelginni en féllu úr leik í undanúrslitum á móti Njarðvík.  Nokkrir KR-inganna tóku svo þátt í landsliðsverkefninu, m.a. „geitin“ Jón Arnór Stefánsson sem lék sinn 100. og síðasta landsleik en því miður (fyrir KR) þá meiddist hann á öxl og var því ekki með í kvöld.  Pavel Ermolinski ekki heldur með en hann glímir við gömlu meiðslin í kálfanum.  Að sögn KR-inga þá ættu þeir ekki að verða lengi frá.  KR-ingar eru mjög vel mannaðir en vissulega er stórt skarð hoggið í þeirra raðir, bara spurning hvernig heimamenn nýta það.

Grindvíkingar hafa valdið vonbrigðum í vetur en á pappír hafa þeir verið taldir vera með eitt besta byrjunarliðið en pappír hefur aldrei talið í íþróttum!  Einn þeirra sem lét pappírinn líta þetta vel út, Tiegbe Bamba var rekinn um daginn og við þá breytingu tóku gulir kipp og unnu m.a. flottan sigur á Tindastólsmönnum en þeir töpuðu síðasta leik sínum fyrir pásuna fyrir Njarðvík illa, 94-65.  KR gerðu ekki heldur góða hluti í þessari síðustu umferð, töpuðu fyrir Haukum 83-74.

Heimamenn byrjuðu betur og könnuðust margir við Lewis nokkurn Clinch jnr. frá því að hann var upp á sitt besta tímabilið 2016-2017 en þá mættust þessi lið einmitt í lokaúrslitum og Clinch var frábær!  Hann hefur ekki náð sér í sömu hæðir á þessu tímabili en byrjaði þennan leik mjög sterkt og var kominn með 13 stig eftir fyrsta fjórðung, sjóðandi heitur fyrir utan 3-stiga línuna!  Ingvi kom líka sterkur til leiks.  Hjá KR bar mest á Julian Boyd.

Heimamenn héldu uppteknum hætti í 2. leikhluta og fengu gott framlag af bekknum í líki Hilmirs „Sexy“ Kristjánssonar sem setti tvo flotta þrista.  Nökkvi Már kom sömuleiðis inn á og bættist í 3-stiga klúbbinn, hittnin var í raun fáranleg um tíma og bæði lið að skjóta ca 50% úr 3-stiga!  Heimamenn ívið sterkari og leiddu með 11 stigum í hálfleik, 54-43.  Clinch var kominn með 19 stig og Ingvi 10.  Hjá KR voru Boyd og Kristófer Acox með 16 og 13 stig og Michele Di Nunno með 8, flott skytta þar á ferð.

Heimamenn byrjuðu betur í seinni hálfleik og fljótlega sást 15 stiga munur, 63-48 en eins og við vitum þá er þessi yndislega íþrótt tengd áhlaupum og áður en varði voru KR-ingar búnir að minnka muninn í 6 stig, 72-66.  Munurinn datt svo aftur í 10 stig en KR átti lokaorðið og staðan fyrir lokabardagann, 78-71.

KR-ingar tóku völdin til að byrja með í 4. leikhluta og leiddu hann 2-14 eftir 3 ½ mínútu, vörnin orðin mikið betri og gulir fengu engin opin skot.  Leikhlé hefði getað verið sterkt þarna hjá Jóhanni.  Grindvíkingar réðu ekkert við Di Nunno á þessum tíma og mátti hann ekki fá opið skot fyrir utan, algerlega deadly skytta en á móti segir sagan að hann sé ekki mesti varnarjálkurinn og var hann kominn með 4 villur og kjörið fyrir gula að sækja á hann.  Það gekk samt ekki, Ítalinn bandaríski kláraði leikinn og það heldur betur með style, tók fjölmörk vítaskot í lokin og nýtti þau öll.  KR-ingar einfaldlega skelltu í lás í vörninni og unnu 4. leikhlutann 30-16 og leikinn þar með 94-101.

Bestir KR-inga voru Di Nunno með 39 í framlag (32 stig og 9 stoðsendingar) og Boyd með 38 í framlag (30 stig, 10 fráköt og 7 stoðsendingar.  Kristófer líka flottur með 27 framlagspunkta (18 stig og 12 fráköst)

Hjá heimamönnum var Lewis bestur, með 33 í framlag(29 stig sem segir að það hægðist heldur á honum í seinni hálfleik).  Sigtryggur Arnar var ekki á fjölinni sinni, hitti einungis úr 1/10 fyrir utan 3-stiga línuna.

Það verður lítil hvíld á lokaspretti deildakeppninnar en næstu leikir þessara liða eru:

Grindavík fer á Ásvelli á fimmtudag og mætir Haukum í sannkölluðum 4. stiga leik!

Fréttir
- Auglýsing -