spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaKR sigur í DHL-höllinni

KR sigur í DHL-höllinni

Það var flott stemmning í DHL höllinni þar sem Þórsarar mættu í heimsókn til KR-inga í Vesturbæinn, hamborgaralyktin umlukti allan bæjarhlutann og góður andi í hverfinu. Staðan í einvíginu 1 – 1 og allt gat gerst.

KR byrjaði leikinn örlítið betur en það var jafnræði með liðunum í fyrsta leikhluta. Kinu Rochford var að venju illviðráðanlegur en hjá Þór voru alls konar menn að setja alls konar skot. 23 – 19 eftir 1 leikhluta. KR fundu þó fjölina sína í öðrum leikhluta sem þeir unnu og fóru með níu stiga forystu inn í hálfleik.

Munurinn hélst svo mestallan seinni álfleikinn, KRingar svöruðu fyrir sig í hvert einasta skipti sem að Þórsarar gerðu sig líklega og þar munaði sérstaklega um Helga Magnússon sem setti nokkur mjög góð skot. KR sigldi þessu svo heim á lokamínútunum. Lokatölur 98 – 89 og KR skrefinu frá enn einum úrslitaleiknum.

Stigahæstur KR í kvöld var Kristófer Acox sem skoraði 26 stig og tók 11 fráköst. Hjá gestunum var Nikolas Tomsick með 22 stig og 7 stoðsendingar.

Tölfræðin lýgur ekki

Það var ekki mikill tölfræðilegur munur á liðunum í kvöld en KR höfðu örlitla yfirhönd flestum þáttum. Skutu aðeins betur, tóku aðeins fleiri fráköst, stálu aðeins fleiri boltum og hittu örlítið betur af vítalínunni. Smá munur sem dugði til sigurs.

Margir stigu upp

Virkilega gaman að sjá hversu margir skiluðu góðu framlagi hjá KR-ingunum í kvöld. Boyd og Pavel voru flottir að dekka Kinu undir körfunni, Kristófer skoraði vel, Helgi og Jón settu stórar körfur, Emil Barja barðist vel í vörninni og Ingi hleypti Birni Kristjánssyni út úr frystikistunni og Björn svaraði með fínum leik.

Kárnandi gaman hjá Kinu

Bæði Julian Boyd og Pavel Ermolinski voru á Kinu Rochford sem hefur reynst flestum liðum mjög erfiður í vetur og átti frábæran leik gegn þessu KR liði í síðasta leik. Pavel og Boyd lágu bara á hægri öxlinni á Kinu og neyddu hann í erfið húkkskot eða einfaldlega skot á leiðinni til hægri. Hann er ekkert sérstaklega hrifinn af slíku og skoraði einungis 14 stig og tók 4 fráköst. Betur má ef duga skal.

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Ólafur Þór)

Viðtöl eftir leik:

Fréttir
- Auglýsing -